Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Efnt til málþings um samspil náttúruverndar, samfélags og atvinnulífs

Frá Skógafossi - myndHugi Ólafsson

Ný hugsun, ný nálgun er yfirskrift málþings sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið efnir til 19. mars nk. um samspil náttúruverndar, samfélags og atvinnulífs. Á málþinginu verður m.a. fjallað um ýmis verkefni þar sem samfélagsleg áhrif náttúruverndar og friðlýsinga hafa verið rannsökuð.

Aðalgestur málþingsins er dr. Chris Sandbrook frá Cambridge háskóla á Bretlandi en hann veitir þar forstöðu alþjóðlegu námi þar sem þjálfun leiðtoga í náttúruvernd er í forgrunni. Chris fer yfir það hvernig þjálfunin er uppbyggð og tekur dæmi um hvernig hún nýtist við mismunandi aðstæður.

Á málþinginu segja Rögnvaldur Ólafsson og Gyða Þórhallsdóttir frá Háskóla Íslands frá talningum ferðamanna á friðlýstum svæðum á Íslandi og greina frá nýjustu tölum í þeim efnum, en verkefnið er unnið á vegum Umhverfisstofnunar. Jukka Siltanen, umhverfis- og auðlindafræðingur, fjallar um niðurstöður rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagræn áhrif friðlýstra svæða, sem unnin var fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Eva B. Sólan Hannesdóttir frá Umhverfisstofnun og Snorri Sigurðsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fjalla um mismunandi leiðir til að vinna að friðlýsingum samkvæmt náttúruverndarlögum. Þá greinir Sigurður Torfi Sigurðsson frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins frá samvinnuverkefni Bændasamtaka Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar.

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála og Þorvarður Árnason frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði kynna niðurstöður nýrrar skýrslu um áhrif verndarsvæða á samfélög í næsta nágrenni við þau. Loks segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, frá vinnu þverpólitískrar nefndar um Hálendisþjóðgarð, en hún átti sæti í nefndinni.

Fundarstjóri er Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Ókeypis er á málþingið en þátttakendur eru beðnir um að skrá sig hér að neðan fyrir 17. mars næstkomandi. Þá er vakin athygli á því að málþingið verður í beinu streymi hér á vef Stjórnarráðsins og á Facebook-síðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Dagskrá málþingsins


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta