Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íslensk stjórnvöld óska eftir að leiða átaksverkefni UN Women

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að íslensk stjórnvöld óski formlega eftir að vera meðal forysturíkja átaksverkefnis Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) til næstu fimm ára.  

Í ár eru 25 ár liðin frá fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var samþykkt pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna (Pekingáætlunin), sem m.a. byggist á ákvæðum Kvennasáttmála SÞ frá árinu 1979, um afnám allrar mismununar gegn konum.

Í tilefni tímamótanna stendur UN Women fyrir átaki undir yfirskriftinni „Kynslóð jafnréttis“ (e. The Generation Equality Forum). Markmið átaksins er að leiða saman ríkisstjórnir, einkageirann og frjáls félagasamtök í sex aðgerðabandalög sem meti hvað hefur áunnist frá ráðstefnunni í Peking og vinni markvisst að úrbótum þar sem enn hallar á konur og stúlkur.

Markmið verkefnisins er skilgreint í samræmi við heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030. Nú þegar fimm ár eru frá því að ríki heims komu sér saman um heimsmarkmiðin sautján hefur komið í ljós að markmiðið um kynjajafnrétti er það markmið sem aðildarríki SÞ eiga lengst í land með.

Verkefnið er stærsta verkefni UN Women hingað til og jafnframt meðal áherslumála framkvæmdastjóra SÞ. Því verður formlega ýtt úr vör á ráðstefnu í París í sumar með þátttöku leiðtoga ríkisstjórna og þjóðarleiðtog og mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sækja ráðstefnuna fyrir Íslands hönd.

Öll Norðurlöndin hafa látið í ljós áhuga á forystuhlutverki í verkefninu. Í ljósi árangurs Íslands á sviði jafnréttismála, náins samstarfs við UN Women og áherslu ríkisstjórnarinnar á málaflokkinn þykir rétt að Ísland óski eftir því að leiða aðgerðabandalag.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
5. Jafnrétti kynjanna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta