Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Týndar, fundnar og brotnar gjafir Íslendinga

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með fundarhamarinn er Ásmundur Sveinsson myndhöggvari mótaði í upphafi, en Jón Benediktsson skar út eftirgerð að. - myndNATO

Í ársbyrjun 1974 varð utanríkisráðuneytið þess áskynja að gjafir íslenska ríkisins til Sameinuðu þjóðanna, tveir forláta fundarhamrar, útskornir af myndhöggvurunum Ásmundi Sveinssyni og Ríkharði Jónssyni, væru ekki á lista yfir gjafir sem einstök ríki höfðu fært stofnuninni. Að sögn embættismanns Sameinuðu þjóðanna voru raunar engar heimildir um þær gjafir.

Utanríkisráðuneytið taldi rétt að fela fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að kanna málið frekar. Í skjali frá fastanefndinni í mars árið 1974 segir svo frá samtali við embættismann í listaverka- og gjafanefnd stofnunarinnar: „Skýrði hann svo frá, að S.Þ. hefðu aldrei heyrt þess getið að Íslendingar hefðu gefið hamar eða nokkra aðra gjöf til S.Þ. Um það finndist [sic] engin heimild“ segir í bréfi fastanefndarinnar. Útlitið sem blasti við fulltrúum fastanefndarinnar var bersýnilega ekki gott. Var búið að týna fundarhömrum þessara tveggja meistara?

Fundarhamrarnir voru sannarlega gefnir

Þrátt fyrir orð embættismannsins hafði íslenska ríkið sannarlega gefið Sameinuðu þjóðunum gjafir. Árið 1952 ákvað ríkisstjórn Íslands að gefa stofnuninni tvo fundarhamra í tilefni af því að nýjar höfuðstöðvar stofnunarinnar í New York voru teknar í notkun. Ásmundi var falið að skera út annan hamarinn en Ríkharði hinn, eins og fyrr segir  og kemur fram í fréttatilkynningu frá ríkisstjórninni þann 15. október 1952. Daginn áður hafði Thor Thors sendiherra, fyrsti fastafulltrúi og formaður sendinefndar Íslands á allsherjarþinginu, afhent fundarhamar Ásmundar, í hendur forseta allsherjarþingsins, Kanadamanninum Lester B. Pearson ráðherra, að viðstöddum Norðmanninum Trygve Lie, fyrsta aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Þann 9. mars 1953 afhenti svo Thor Thors Sameinuðu þjóðunum fundarhamar Ríkharðs, en hann hafði vegna meiðsla ekki náð að ljúka við verkið árið áður.

Myndræn endurgerð af fundarhamri Ásmundar úr ljósmyndsafni Sameinuðu þjóðanna. Í fréttatilkynningu þann 15. október 1952 var hamrinum lýst: „Hamarinn er skorinn úr dökkum viði og á hann letrað: "Með lögum skal lönd byggja" en þar undir í latneskri þýðingu: "Legibus gentes sunt moderandae"." Listamaðurinn réði sjálfur gerð hamarsins, sem auk kjörorðanna, felst í stílfærðri mynd af víkingi með spenntar greipar, „Bæn víkingsins fyrir friði" sem telja verður einkar vel til fundið í ljósi höfuðhlutverks þessara helstu samtaka þjóða heims. Ljósmynd/UN Photo.

Listinn ekki tæmandi

En hvers vegna voru fundarhamrarnir ekki á listanum? Fastanefndin kallaði eftir því að í skjalasafni utanríkisráðuneytisins yrði skoðað; „hvort og þá hvenær fundarhamar hafi verið gefinn S.Þ., svo unnt sé að komast til botns í máli þessu.“ Stutta svarið, sem síðar barst frá Sameinuðu þjóðunum, var það að gjafalistinn væri ekki tæmandi, en áður en það svar barst voru gögn ráðuneytisins skoðuð. Í þeim er meðal annars frásögn þar sem minnst er á fræga uppákomu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1960 er hinn írski Frederick Boland, forseti allsherjarþingsins, braut fundarhamar Ásmundar. Boland hafði þá beitt hamrinum allharkalega til þess að yfirgnæfa lætin í Níkíta Krústsjoff, leiðtoga Sovétríkjanna, sem farið hafði úr öðrum skó sínum og lamið í borðið í mótmælaskyni við ræðu sem honum mislíkaði. Gert var við hamarinn og hann svo afhentur Boland en hefð var fyrir því að forseti hvers allsherjarþings fengi fundarhamar að gjöf í þinglok.

Kjarval Íslendingar hafa ekki aðeins fært Sameinuðu þjóðunum fundarhamra að gjöf. Í tilefni af 40 ára afmæli aðildar Íslands að stofnuninni færðu Íslendingar Sameinuðu þjóðunum Þingvallamálverk eftir Jóhannes Kjarval að gjöf. Virendra Dayal, skrifstofustjóri aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tók við gjöf Íslendinga. Ásamt Dayal (lengst t.v.) á myndinni eru Hörður Helgason, fastafulltrúi Íslands hjá samtökunum og Matthías Á. Mathiesen utanríkisráðherra. Þorvaldur Guðmundsson forstjóri í Síld og fisk, sem var þekktur málverkasafnari, gaf íslenska ríkinu málverkið í þessu skyni, en hann vildi stuðla að alþjóðlegri kynningu á verkum listamannsins. Var málverkinu valinn staður í skrifstofu forseta allsherjarþingsins sem er undir hinum veglega ræðupalli í aðalfundarsal þingsins. Virendra Dayal, skrifstofustjóri aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tekur við gjöf Íslendinga, Þingvallamálverki Jóhannesar Kjarvals, í tilefni af 40 ára afmæli aðildar Íslands að Sameinuðu þjóðunum árið 1986. Ásamt Dayal eru á myndinni Hörður Helgason, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og Matthías Á. Matthiesen utanríkisráðherra. Þorvaldur Guðmundsson forstjóri gaf íslenska ríkinu málverkið en hann vildi stuðla að alþjóðlegri kynningu á verkum listamannsins.

Ári síðar gaf íslenska ríkið Sameinuðu þjóðunum þriðja hamarinn og enn á ný kom það í hlut Thors Thors að afhenda. Í þetta skiptið var það Mongi Slim, forseti allsherjarþingsins, sem veitti verkinu viðtöku. Í fréttatilkynningu stofnunarinnar segir að um endurgerð Ásmundar af hamrinum sem brotnaði hafi verið að ræða. Í Morgunblaðinu 21. september 2005 segir aftur á móti að Jón Benediktsson húsgagnasmiður hafi gert eftirlíkinguna en hann hafi, að sögn Ólafs, sonar Jóns, gert „þá kröfu að vinur sinn, Ásmundur Sveinsson, fengi greidd höfundarlaun fyrir eftirgerð hamarsins.“ Hér mun þó slá saman hömrum, því vitað er að þegar kom fram á 9. áratug liðinnar aldar í utanríkisráðherratíð Geirs Hallgrímssonar reyndist enn þörf á að endurnýja hamarinn. Var sá hamar – hinn fjórði í röðinni – skorinn út af Jóni. Mun viðurinn hafa verið sömu gerðar, en til þess að styrkja gripinn og búa betur undir átök þróttmikilla þingforseta var hann gerður úr kubbi sem til var orðinn við að líma þynnur viðarins saman þvers og krus.

Í áðurnefndu viðtali segir einnig að Jón hafi gert aðra eftirgerð af hamrinum sem Íslendingar hafi gefið Atlantshafsbandalaginu árið 1963. Pétur J. Thorsteinsson sendiherra, fastafulltrúi hjá bandalaginu, afhenti Hollendingnum Dirk Stikker, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, þann hamar. Í stuttri tölu á ráðsfundi bandalagsins skýrði Stikker frá gjöfinni og minnti á til gamans, að samskonar hamar hefði brotnað í höndum fundarstjóra allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, er hann þurfti að beita honum í samkeppni við skó Khrústsjovs forsætisráðherra segir í bréfi Péturs stíluðu á Guðmund Í. Guðmundsson utanríkisráðherra.

Tekur listasmíðin sú arna mikið lengri tíma?

Eflaust datt Stikker það ekki í hug að hamar sá er hann fékk að handleika myndi brotna aðeins nokkrum árum síðar. Þann 30. nóvember 1972 henti það Hollendinginn Joseph Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, „að halda á fundarhamrinum goda, asmundarnaut, i tvennu lagi [sic]“ segir í símbréfi til utanríkisráðuneytisins. Skjótum úrbótum hafði verið lofað af hendi ráðuneytisins og ljóst var að nokkurrar óþreyju tók að gæta um efndir innan íslensku fastanefndarinnar. Þremur mánuðum síðar barst eftirfarandi símbréf til ráðuneytisins: „nu eru senn 3 manudir -- arsfjordungur rjettur fra slysinu -- sidan gefid var i skyn ad von vaeri a nyrri vinargjoef i formi sterks fundarhamars. tekur hun mikid lengri tima listasmidin su arna? [sic]“

Fundarhamarinn, eftir Ásmund Sveinsson, sem afhentur var NATO eftir nokkra bið, árið 1975.  Ljósmynd/NATO

Nýr fundarhamar var að lokum afhentur fyrir leiðtogafund Atlanthafsbandalagsins 30. maí 1975. Við setningu fundarins var haft eftir Luns í Morgunblaðinu að hamarinn hefði brotnað „vegna óstjórnlegra átaka á fundi“. Tjáði hann fundarmönnum að Íslendingar hefðu gefið Atlantshafsbandalaginu annan fundarhamar: „og er sá sterkari,“ sagði Luns. Ótrúlegt en satt týndist hinn nýi og sterki hamar og fannst raunar ekki fyrr en árið 2018 er hann kom í ljós í flutningum skrifstofu framkvæmdastjóra bandalagsins yfir í nýjar höfuðstöðvar, að því er segir í Morgunblaðinu.

Þennan hamar skar listakonan Sigríður Kristjánsdóttir út og var hann afhentur SÞ árið 2005. Ljósmynd/utanríkisráðuneytið.

En sagan endurtekur sig eins og þegar er orðið ljóst af frásögn þessari. Íslensk stjórnvöld komust að því árið 2005 að sá hamar sem íslenska ríkið hafði fært Sameinuðu þjóðunum að gjöf  hefði einnig týnst. Kom það í hlut Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra að afhenda nýjan hamar, í þetta skiptið útskorinn af listakonunni Sigríði Kristjánsdóttur, Siggu á Grund í Villingaholtshreppi. Var sá hamar einnig eftirlíking af upphaflegu snilldarverki Ásmundar. Hann er í notkun og er raunar ánægjulegt að geta skýrt frá því að þegar nýr forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna tekur verið störfum á hausti hverju gerist það með þeim táknræna hætti að fráfarandi forseti þingsins afhendir hinum nýkjörna hamarinn góða, gjöf Íslands, Ásmundarnaut. 

 

Slíka athöfn má sjá hér að ofan er María Fernanda Espinosa Garcés forseti 73. allsherjarþings tekur við hamrinum úr hendi Miroslav Lajčák fráfarandi forseta að viðstöddum aðalframkvæmdastjóra SÞ, António Guterres.

Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og einn varaforseta 62. allsherjarþings samtakanna sem haldið var í júní 2008, handleikur fundarhamarinn.

Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og einn varaforseta 62. allsherjarþings samtakanna sem haldið var í júní 2008, handleikur fundarhamarinn. Ljósmynd/UN Photo.

Í sögusafni utanríkisráðuneytisins er ekki minnst frekar á hamarinn sem Ríkharður Jónsson skar út og afhentur var Sameinuðu þjóðunum árið 1953.

Hamar Ríkharðs sem gefinn var Sameinuðu þjóðunum 1953. Tekið úr Ríkharður Jónsson, Tréskurður og mannamyndir (1955) bls. 50.

Upplýsingadeild SÞ og fastanefnd Íslands fjölluðu um hamar Ásmundar á Twitter í upphafi 74. allsherjarþings:

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta