Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Staða kvenna af erlendum uppruna rædd á málþingi

Málþing um stöðu kvenna af erlendum uppruna - mynd

Í dag var haldið málþing í tilefni útgáfu skýrslunnar: „Staða kvenna af erlendum uppruna – Hvar kreppir að?

Skýrslan var unnin af Háskóla Íslands í samstarfi við öndvegisverkefnið Þverþjóðleiki og hreyfanleiki á Íslandi að beiðni félagsmálaráðuneytisins. Markmið með skýrslunni var meðal annars að kortleggja þá þekkingu sem liggur fyrir um stöðu kvenna af erlendum uppruna og afla eigindlegra gagna um helstu hindranir sem konur af erlendum uppruna upplifa í íslensku samfélagi. Skýrslan er hluti af viðbrögðum stjórnvalda vegna frásagna kvenna ef erlendum uppruna undir formerkjum #metoo.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra flutti ávarp á málþinginu þar sem hann þakkaði konunum fyrir að stíga fram og deila reynslu sinni af kynferðisofbeldi, mismunun og áreiti. „Það krefst hugrekkis að deila slíkri reynslu og þegar hópur stígur svo ákveðið fram þá ber stjórnvöldum að hlusta og bregðast við. Ljóst er að konur af erlendum uppruna geta verið í enn viðkvæmari stöðu  en íslenskar konur, þar sem þær þekkja kannski ekki alltaf innviði samfélagsins, réttindi sín eða þau úrræði sem til eru.“

Meðal þess sem kom fram í rannsókninni er að:

  • vinnudagur kvenna af erlendum uppruna er lengri en gengur og gerist meðal kvenna á Íslandi, eins og tölfræðigögn endurspegla. Auk þess er vinnutími þeirra óreglulegri, sem getur hamlað þátttöku í margs konar viðburðum, íslenskunámi og aðgangi að íslensku málsamfélagi. 
  • konur af erlendum uppruna eru oftar en karlar of menntaðar fyrir þau störf sem þær sinna og atvinnuleysi er hærra meðal þeirra en meðal innlendra kvenna, sérstaklega meðal þeirra sem hafa erlent ríkisfang. 
  • atbeini  og fjölbreytileiki kvenna af erlendum uppruna er lítt sýnilegur í íslensku samfélagi. 
  • fleiri kvenkyns innflytjendur útskrifast úr framhaldsskólum en karlkyns innflytjendur og að jafnaði útskrifast fleiri konur með viðbótarstig á framhaldsskólastigi en karlar, meðal innflytjenda. 

Niðurstöður skýrslunnar eru mikilvægt innlegg í stefnumótun stjórnvalda í málefnum innflytjenda og munu þær nýtast í áframhaldandi vinnu stjórnvalda við mótun nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda. 

  • Málþing um stöðu kvenna af erlendum uppruna - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta