Nýr samningur um þjónustu Íslandsstofu
Auk markaðsgjalds fær Íslandsstofa samtals 1.575 milljónir á samningstímanum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
Utanríkisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og framkvæmdastjóri Íslandsstofu hafa undirritað nýjan þjónustusamning um starfsemi Íslandsstofu. Nýi samningurinn liggur til grundvallar starfsemi Íslandsstofu til þess að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.
„Íslandsstofa er nú betur í stakk búin en nokkru sinni áður til að leiða markvissa sókn á erlenda markaði í kjölfar þeirra grundvallarbreytinga sem við gerðum 2018. Á grunni ítarlegrar stefnumótunarvinnu Íslandsstofu og Útflutnings- og markaðsráðs og samningsins sem við höfum nú undirritað er tryggt að atvinnulíf og stjórnvöld muni vinna sem eitt lið á útivelli,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Samningurinn felur meðal annars í sér enn nánara samráð Íslandsstofu og viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar erlendis.
„Með samningnum er fjármögnun verkefna Íslandsstofu tryggð til lengri tíma. Fimm af sex nýjum stefnumótandi áherslum Íslandsstofu heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Með þeim og þessum samningi tryggjum við samhljóm við stefnumótun stjórnvalda og leggjum traustan grunn að markvissu og árangursríku markaðsstarfi á erlendri grundu,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Grunnurinn í fjármögnun Íslandsstofu er markaðsgjald sem fyrirtækin í landinu greiða auk framlags atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis sem samkvæmt samningnum verður 1.575 milljónir króna á árunum 2020-2024 eða 300 - 375 milljónir króna á ári. Samningurinn er gerður skv. lögum um Íslandsstofu og byggir m.a. á stefnumótun Íslandsstofu og stefnumótun stjórnvalda í ferðaþjónustu. Hann tekur við af fyrri samningum við Íslandsstofu um almennt kynningar- og markaðsstarf fyrir Ísland, m.a. samningi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis um markaðsstarf undir merkjum Ísland allt árið (Inspired by Iceland) og samningi um markaðsstarf undir merkjum Iceland Naturally.
Hlutverk Íslandsstofu, sjálfseignastofnunar, er lögum samkvæmt skilgreint sem samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir. Lögum um Íslandsstofu var breytt árið 2018 og nýtt Útflutnings- og markaðsráð stofnað. Kváðu breytt lög á um að nýr þjónustusamningur skyldi gerður á milli ríkisins og Íslandsstofu auk þess sem Íslandsstofu var jafnframt falið að móta langtímastefnu um aukningu útflutningstekna. Þjónustusamningurinn er lokahnykkurinn á þessari vinnu en ný langtímastefna stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning var kynnt haustið 2019.
„Samningurinn felur í sér að unnið verður að því að efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum, sem og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins, sem styrkir stoðir efnahagslífsins. Því er mikilvægt að hann skuli vera í höfn,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu, segir þjónustu Íslandsstofu afar mikilvæga fyrir atvinnulífið. „Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda um að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins á sér langa sögu og hefur verið mikilvægur þáttur í að auka verðmætasköpun íslensks þjóðfélags. Íslandsstofa ef kjölfestuaðili í því samstarfi. Með nýrri útflutningsstefnu og undirritun samningsins hefur starfsemi hennar verið markaður skýr rammi til næstu fimm ára,“ segir Hildur.