Jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verði flýtt um áratug
Jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verður flýtt um áratug samkvæmt tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í innviðum sem kynntar voru í morgun. Hópurinn var skipaður í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember síðastliðnum.
Samkvæmt núverandi áætlunum lýkur jarðstrengjavæðingunni eftir 15 ár eða árið 2035. Lagt er til að verkið verði unnið þrefalt hraðar eða á 5 árum. Því verði þannig að mestu lokið 2025.
Þrífösun verður innleidd samhliða jarðstrengjavæðingunni.
Áætlað er að jarðstrengjavæðingin muni fækka truflunum í dreifikerfinu um 85% og að þær verði að mestu óháðar veðri.
Framkvæmdirnar lúta nær alfarið að dreifbýlishluta dreifikerfa RARIK og Orkubús Vestfjarða. Tillagan kallar á að ríkissjóður leggi fram flýtigjald, um 500-600 milljónir króna.
„Ávinningurinn af þessu er mikill, bæði hvað varðar aukið afhendingaröryggi og innleiðingu þrífösunar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra orkumála. „Ég hef þegar beitt mér fyrir hliðstæðri flýtingu framkvæmda á tveimur svæðum þar sem þörfin var óvenju brýn, í Skaftárhreppi og á Mýrum. Við eigum að halda áfram á þeirri braut.“
Hópurinn gerir fjölmargar fleiri tillögur í orkumálum. Þær helstu eru einfaldara og skilvirkara leyfisveitingaferli vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku, efling varaafls, flýting framkvæmda til styrkingar á svæðisflutningskerfi raforku og aukið öryggi í framboði varma til húshitunar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Heildarkostnaður þeirra framkvæmda í flutnings- og dreifikerfi raforku sem lagt er til að verði flýtt er um 12 milljarðar króna. Þá eru að sjálfsögðu ótaldar miklar framkvæmdir sem ekki verður flýtt heldur farið í samkvæmt núgildandi áætlunum.
Tillögurnar og viðbótarupplýsingar má nálgast á vefnum innvidir2020.is. Tillögurnar verða til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til loka mars.