Norðurlöndin í sérstöðu í erfðavísindum og rannsóknum
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra stýrði umræðum og pallborði á fundi norrænna deildarforseta háskóla sem fram fór í Kaupmannahafnarháskóla í dag en fundarefnið var norræn samvinna á sviði erfðavísinda og rannsókna. Fundurinn bar yfirskriftina „Nordic Precision Medicine Meeting: Cooperation in Enabling Research and Education“ en það fag innan læknisfræðinnar snýst um rannsóknir á erfðasýnum og gögnum til þess að auka forvarnir gegn sjúkdómum og efla einstaklingsbundin meðferðarúrræði.
Norðurlöndin búa nú þegar yfir gríðarmiklu magni upplýsinga um borgara sem hafa verið skrásettar í heilbrigðiskerfi landanna eða í lífsýnasöfnum þeirra (e. biobank). Slíkar upplýsingar og vitneskja hafa nýst stjórnvöldum Norðurlandanna til þess að efla heilbrigðiskerfi, þróa betri lyf og auka skilning á sjúkdómum.
„Það var virkilega fróðlegt og upplýsandi að hlusta á líflegar umræður um þetta mikilvæga mál. Álitaefni um lagalegar og siðferðislegar hindranir í sameiginlegum gagnabanka voru rædd í þaula. Vísinda- og heilbrigðisstarfsfólk á Norðurlöndunum hefur sýnt fram á möguleika þess hvernig nýta megi erfðavísindi í þágu heilbrigðiskerfisins. Samstarf landanna er mikilvægara sem aldrei fyrr og með viljann að vopni getum við orðið leiðandi afl í erfðavísindum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Á fundinum var jafnframt rætt um möguleikann á samnorrænum genabanka, þar sem hægt væri að safna saman gríðarmiklum upplýsingum frá öllum Norðurlöndunum. Væntingar vísindamanna eru að fá sýni frá fimm milljónum Norðurlandabúa í slíkan banka. Meðal þeirra sem ávörpuðu einnig ráðstefnuna voru Henrik Wegener, rektor Kaupmannahafnarháskóla og dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Þá eru Ole P. Ottersen, rektor Karólínska Háskólasjúkrahússins ásamt Engilbert Sigurðssyni forseti Læknadeildar Háskóla Íslands meðal skipuleggjenda fundarins.