Hoppa yfir valmynd
2. mars 2020 Innviðaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Samkomulag um að efla rafræna birtingu reglugerða

  - myndStjórnarráðið

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra undirrituðu í dag samning um verkefni sem lýtur að rafrænni birtingu reglugerða. Verkefnið felst í því að uppfæra allar gildandi reglugerðir og birta með breytingum á www.reglugerd.is. Markmiðið er að stuðla að auknu réttaröryggi borgaranna og bæta yfirsýn yfir réttarheimildir sem í gildi eru á hverjum tíma.

Verkefnið verður unnið hjá Sýslumannsembættinu í Vestmannaeyjum. Það verður fjármagnað í samræmi við byggðaáætlun stjórnvalda (aðgerð B.8) sem kveður á um að styrkja verkefni á vegum opinberra stofnana sem miða að því að koma gögnum á stafrænt form sem og fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Stuðningur af byggðaáætlun er samtals 30 m.kr. á þriggja ára tímabili. Samningurinn er gerður með vísan í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá ágúst 2019.

„Við leggjum mikla áherslu á að treysta innviði og fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni, í samráði við heimamenn á hverjum stað. Í því skyni hefur samtals 531,4 m.kr. verið úthlutað til 31 verkefnis í gegnum samkeppnissjóði sem heyra undir ráðuneytið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Um er að ræða þrjár aðgerðir á byggðaáætlun. Í fyrsta lagi aðgerð A.9 Verslun í strjálbýli en alls hafa 11 verslanir fengið styrki, samtals að upphæð 46,3 m.kr. á tímabilinu. Í öðru lagi aðgerð B.8 Fjarvinnslustöðvar en sex verkefni hafa fengið styrk á grundvelli aðgerðarinnar, samtals að upphæð 121,6 m.kr. Loks er um að ræða aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða þar sem 363,5 m.kr. hefur verið úthlutað til 14 verkefna. 

Alls hafa 104 umsóknir borist um styrki á grundvelli aðgerðanna þriggja. Sérstök valnefnd fer yfir allar umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um úthlutun framlaga. Í valnefndinni sitja þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Með valnefnd starfa Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.

Verkefni Aðgerð Staðsetning Upphæð
Verslun í Norðurfirði í Árneshreppi A.9 Vestfirðir 7.200.000
Verslun í Hrísey A.9 Norðurland eystra 6.300.000
Strandakjarni, verslun/þjónustumiðstöð á Hólmavík A.9 Vestfirðir 3.300.000
Verslun á Raufarhöfn - Urð ehf. A.9 Norðurland eystra 5.500.000
Verslunarrekstur í Grímsey A.9 Norðurland eystra 2.400.000
Verslun á Borgarfirði eystri - Gusa ehf. A.9 Austurland 6.000.000
Pöntunarþjónusta Hafnartanga, Bakkafirði A.9 Norðurland eystra 1.500.000
Verslun, Brekkan Stöðvarfirði - Ástrós ehf.  A.9 Austurland 6.000.000
Verslun á Kópaskeri - Skerjakolla ehf. A.9 Norðurland eystra 2.300.000
Verslun á Drangsnesi A.9 Vestfirðir 4.800.000
Verslun í Ásbyrgi A.9 Norðurland eystra 1.000.000
Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa fær styrk til að safna upplýsingum og skrá menningararf B.8 Vestfirðir 18.000.000
Fjarvinnsla á Djúpavogi - Minjastofnun Íslands fær styrk til að skrá minningarmörk B.8 Austurland 21.000.000
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum - skönnun og skráning þinglýstra skjala B.8 Vestfirðir 18.000.000
Þjóðskrá Íslands - skráning þinglýstra gagna í landeignaskrá. Samstarf við brothættar byggðir í Hrísey og Grímsey. B.8 Norðurland eystra 18.000.000
Gagnagrunnur sáttanefndarbóka - Rannsóknarsetur HÍ á Skagaströnd hlýtur styrk til að vinna gagnagrunn B.8 Norðurland vestra 40.600.000
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hlýtur styrk til rafrænnar skönnunar fjölskyldumála á landsvísu B.8 Norðurland eystra 6.000.000
Innviðauppbygging vegna gagnavers á Blönduósi C.1 Norðurland vestra 95.000.000
Uppbygging Vínlandsseturs í Dalabyggð - valkostur í ferðaþjónustu, veitingastaður og safn C.1 Vesturland 15.000.000
Gestastofa Snæfellsness - gegnir lykilhlutverki við eflingu ferðaþjónustu á sunnanverðu nesinu. C.1 Vesturland 25.000.000
Aðgerðaáætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðis Suðurlands C.1 Suðurland 13.500.000
Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð á Vestfjörðum C.1 Vestfirðir 15.000.000
Menningarbærinn Seyðisfjörður - stuðningur við faglegt starf C.1 Austurland 15.000.000
Stórskipahöfn í Finnafirði - stofnun félags um reksturinn og þróunarfélag sem sér um kynningu og markaðssetningu C.1 Norðurland eystra 18.000.000
Framleiðsla rafmagns með lághitavatni úr borholu Æ3 við Skógarlón í Öxarfirði C.1 Norðurland eystra 10.500.000
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði - tilraunaverkefni um byggðaþróun á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar C.1 Austurland 62.500.000
Þekkingarsetur í Skaftárhreppi - hönnun á þekkingarsetri á heimavist Kirkjubæjarskóla C.1 Suðurland 67.500.000
Orkuskipti og bætt orkunýting í Grímsey - styrkur til að skoða fýsileika orkuskipta C.1 Norðurland eystra 5.200.000
Strandakjarni - undirbúa þjónustumiðstöð sem hugsuð er fyrir fjölbreytta starfsemi undir sama þaki C.1 Vestfirðir 4.300.000
Vestfirðir á krossgötum – uppbygging innviða og atvinnulífs. Viðhorfskönnun og greining á samfélagslegum áhrifum samgöngubóta og á áhrifum fiskeldis C.1 Vestfirðir 12.000.000
Hitaveituvæðing Óslandshlíðar, Viðvíkursveitar og Hjaltadals - styrkur til að leggja stofnlögn hitaveitu og tengja borholu í Fljótum C.1 Norðurland vestra 5.000.000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta