Efla menntasamstarf Íslands og Póllands
Með yfirlýsingunni er lögð áhersla á að nemendur af pólskum uppruna hafi aðgang að menntun á móðurmáli sínu, hvatt er til aukins samstarfs menntastofnana og samskipta ungmenna, kennara og skólastarfsfólks. Samhliða undirrituninni var tilkynnt að pólsk yfirvöld áforma að opna pólskuskóla á Íslandi, þar sem m.a. mun fara fram móðurmálskennsla fyrir pólsk-íslenska nemendur um helgar.
„Vellíðan og árangur nemenda í menntakerfinu okkar er mér hjartans mál og því er þessi samstarfsyfirlýsing afar ánægjuleg. Um 3000 börn af pólskum uppruna ganga í íslenska skóla og við þurfum að styrkja stöðu þeirra á öllum skólastigum. Góð móðurmálskunnátta er forsenda þess að barn nái góðum tökum á öðru tungumáli,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Undirritun yfirlýsingarinnar er táknræn fyrir mikilvægi samstarfs ríkjanna á sviði menntamála og áherslur mennta- og menningarmálaráðherra í málefnum nemenda af erlendum uppruna.