Yfirlýsing ríkisstjórnar, SA og ASÍ um laun í sóttkví
Ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa komist að samkomulagi um hvernig staðið verði að launagreiðslum til fólks sem þarf að vera í sóttkví vegna COVID-19.
Aðilar eru sammála um að einstaklingar verði að geta fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni og eru ásáttir um eftirfarandi:
- Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
- Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
- Stjórnvöld munu beita sér fyrir því að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekendi sem greiðir launamanni, sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví, laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar upp að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Útfærsla á aðkomu stjórnvalda verður kynnt um miðjan mars.