Réttarstaða þriðja aðila bætt með breytingu á upplýsingalögum
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram í ríkisstjórn í morgun frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum nr. 140/2012. Var samþykkt að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi.
Markmið frumvarpsins er að bæta og skýra réttarstöðu þriðja aðila, þ.e. þess sem getur átt hagsmuna að gæta af því að veittur verði aðgangur að tilteknum upplýsingum.
Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögunum:
- Kveðið er á um skyldu þess sem hefur upplýsingabeiðni til meðferðar til að afla álits þriðja aðila til afhendingar upplýsinga sem varða mikilvæga og virka einkahagsmuni viðkomandi áður en ákvörðun er tekin um afhendingu gagna, nema slíkt sé augljóslega óþarft.
- Mælt er fyrir um skyldu úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að senda þriðja aðila afrit úrskurðar þegar kveðið er á um skyldu til að afhenda gögn sem varða mikilvæga og virka einkahagsmuni hans.
- Loks er kveðið á um rétt þess sem umbeðnar upplýsingar varða til þess að krefjast frestunar réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál þegar úrskurður kveður á um skyldu til að veita aðgang að gögnum sem varða mikilvæga og virka einkahagsmuni hans.
Breytingarnar eru í samræmi við sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis sem kveður á um að ríkisstjórnin leggi áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi.