Þingsályktun um forvarnastefnu afgreidd úr ríkisstjórn
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði fram í ríkisstjórn í morgun tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025.
Tillagan markar þau tímamót að hún felur í sér fyrstu heildstæðu stefnuna hér á landi um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Hún á sér stoð í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, bæði hvað varðar réttindi barna og réttindi kvenna.
Lagt er til að forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum, í öllu starfi á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi. Í því skyni verði ráðist í gerð námsefnis fyrir öll skólastig, auk fræðsluefnis um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum.
Til að tryggja framfylgd áætlunarinnar er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga ráði sérstakan forvarnafulltrúa sem vinni með skólaskrifstofum sveitarfélaga og skólum og leikskólum utan skólaskrifstofa, að því að miðla þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla um allt land. Fulltrúinn mun jafnframt hafa skilgreint hlutverk gagnvart framhaldsskólum, sem ekki heyra undir sveitarfélögin.
Í tengslum við stefnumótunina var efnt til víðtæks samráðs við stofnanir, félagasamtök og fræðafólk sem starfa að forvörnum. Drögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og voru gerðar nokkrar breytingar á áætluninni til að bregðast við athugasemdum umsagnaraðila. Alls bárust ellefu umsagnir frá samtökum og stofnunum sem koma að málaflokknum og almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með stefnudrögin og aðgerðaáætlunina sem þeim fylgir.
Forsætisráðherra mun bera stjórnsýslulega ábyrgð á aðgerðaráætluninni í náinni samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, vegna aðkomu þeirra ráðuneyta og undirstofnanna.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Þessi áætlun er mikilvægur áfangi til að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um heildstæðar úrbætur á öllu því sem varðar baráttuna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Hún kallar á samstillt átak til að koma í veg fyrir þann skaða sem þetta veldur í samfélagi okkar.”