Hoppa yfir valmynd
26. mars 2020 Innviðaráðuneytið

Reglugerðir um skráningu og skoðun ökutækja í samráðsgátt

Drög að breytingum á reglugerð um skráningu ökutækja og drög að nýrri reglugerð um skoðun ökutækja hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 13. apríl nk. 

Ýmsar breytingar eru lagðar til á reglugerð um skráningu ökutækja (nr. 751/2003) og ná þær m.a. til vinnuvéla og léttra bifhjóla í flokki I. Í drögum að nýrri reglugerð um skoðun ökutækja eru m.a. innleidd efnislega ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2014 um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra.

Reglugerð um skráningu ökutækja – helstu breytingar:

  • Vinnuvélar sem notaðar eru í almennri umferð verði skráningarskyldar í samræmi við ákvæði umferðarlaga.
  • Samgöngustofu fái heimild til að afskrá einhliða ökutæki sem ekki hefur verið fært til skoðunar í 10 ár.
  • Skýrt tekið fram í reglugerð að eigendaskipti og almenn umsýsla önnur en skráning og afskráning í ökutækjaskrá sé áfram hlutverk Vinnueftirlitsins.
  • Sett eru inn ákvæði um heimildir til skráningar breytingalása í samræmi við ákvæði nýrra umferðarlaga. Breytingalásar takmarka skráningar sem hægt er að framkvæma vegna ökutækis eða eiganda í ökutækjaskrá.
  • Sett eru inn ákvæði um útlit og staðsetningu skráningarmerkja léttra bifhjóla í flokki I sem gerð eru skráningarskyld í samræmi við ákvæði umferðarlaga.

Ný reglugerð um skoðun ökutækja – helstu breytingar:

  • Skólabifreiðar og bifreiðar sem flytja hreyfihamlaða verði skoðaðar árlega líkt og leigubifreiðar og ökutæki ætluð til neyðaraksturs. Þá er lagt til að ökutæki í notkunarflokknum ökutæki í ökutækjaleigu verði fyrst skoðuð innan þriggja ára frá því að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti.
  • Almennt vanrækslugjald verði hækkað úr 15.000 kr. í 20.000. Þá er lagt til að vanrækslugjald vegna hópbifreiða og vörubifreiða verði 40.000 kr. til að tryggja enn frekar varnaðaráhrif þess að stórar og þungar bifreiðar séu ekki óskoðaðar á vegum landsins og auka þannig umferðaröryggi.
  • Dráttarvélar með hönnunarhraða yfir 40/km á klst. sem notaðar eru á opinberum vegum verði gerðar skoðunarskyldar. Sömuleiðis eftirvagnar dráttarvéla sem hannaðir eru til aksturs yfir 40 km á klst. og ætlaðir til notkunar á opinberum vegum.
  • Rafknúin dráttartæki og létt bifhjól í flokki I verði gerð skoðunarskyld í samræmi við kröfur umferðarlaga.
  • Ný heimild er sett inn að nýju til undanþágu ökutækja frá skoðun sem staðsett eru á tilteknum eyjum, þ.e. Flatey á Breiðafirði, Grímsey og Hrísey.
  • Skoðunarstofur verði ekki lengur flokkaðar í skoðunarstofu I og II heldur miðist viðurkenning við þann búnað sem er til staðar.
  • Ökutæki sem færa skal til skoðunar óháð endastaf fyrir 1. ágúst skv. gildandi reglugerð skuli nú færa til skoðunar fyrir 1. júlí. Um er að ræða fornbifreiðar, húsbifreiðar, bifhjól, hjólhýsi og tjaldvagna sem eru fyrst og fremst notuð yfir sumartímann og því þykir rétt að þau verði skoðuð á fyrri hluta sumars.
  • Bætt er við nýju ákvæði um að skoðun skuli ljúka með niðurstöðu og tilkynnt skuli um það þegar komið er með ökutæki til skoðunar. Þannig verður ökumanni ekki heimilt að hætta við skoðun sem er hafin og leita annað til að fá ökutæki skoðað.
  • Sett er inn nýtt ákvæði í samræmi við kröfur tilskipunarinnar um að athuga skuli hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis.
  • Lagt er til nýmæli um að ekki megi afhenda skráningarmerki ökutækis ef niðurstaða síðustu skoðunar var notkun bönnuð.

Nánar um reglugerðirnar á samráðsgátt stjórnvalda

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta