Hoppa yfir valmynd
30. mars 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Varðveisla norræna súðbyrðingsins: tilnefning á skrá UNESCO

Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna. - myndAf vefnum lifandihefdir.is / Síldarminjasafn Íslands
Norðurlöndin standa sameiginlega að tilnefningu til UNESCO um að smíði og notkun hefðbundinna norrænna trébáta, svokallaðra súðbyrðinga, komist á skrá yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Þetta er í fyrsta sinn sem Norðurlöndin senda inn sameiginlega tilnefningu á skrá UNESCO en öll norrænu menningarmálaráðuneytin stóðu að tilnefningunni sem afhent var UNESCO í París í liðinni viku.

Verði tilnefningin samþykkt er það staðfesting alþjóðasamfélagsins á að þennan menningararf beri að varðveita fyrir ókomnar kynslóðir. Skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkynsins er hliðstæð við hina þekktari Heimsminjaskrá UNESCO. Önnur skráin heldur utan um heimsminjastaði en hin um lifandi hefðir og menningarerfðir.

Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund ár hefur skipt sköpum fyrir sjósókn Norðurlandanna. Súðbyrðingar geta verið margvíslegir eftir landssvæðum, en aðferðin við smíði þeirra er sú sama á Norðurlöndunum. Smíði þessara báta byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Frá alda öðli hafa súðbyrðingar tengt saman samfélög stranda á milli, fært norrænar þjóðir út í heim og heiminn aftur til Norðurlandanna. Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna.

Um það bil 200 fagaðilar, söfn og félagssamtök á Norðurlöndunum styðja tilnefninguna. Á Íslandi er þar fremst í flokki Vitafélagið – íslensk strandmenning. Á Íslandi eru nokkrir bátasmiðir sem smíða súðbyrðinga og við Síldarminjasafnið á Siglufirði eru haldin námskeið í smíði súðbyrðinga og viðhaldi á þeim. Á sjóminjasöfnum landsins má að finna súðbyrta báta til sýnis og á Reykhólum eru árlega haldnir Bátadagar á Breiðafirði þar sem siglingahefðinni er viðhaldið.

Skráning súðbyrðingsins á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns mun skylda Norðurlöndin til að tryggja að þessum hluta sameiginlegs menningararfs landanna sé haldið lifandi í þágu komandi kynslóða. Nánar má fræðast um málið á vefnum lifandihefdir.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta