Skýrsla um vigtun sjávarafla
Það skiptir sköpum að birta nöfn fyrirtækja þegar kemur að endurvigtun og aukið eftirlit Fiskistofu með minni (samþættum) aðilum og áframhald á aðgerðum Fiskistofu er líklegt til að halda vandamálum tengdum áreiðanleika endurvigtunar og umfangi frávika í skefjum. Þetta eru niðurstöður úr nýrri skýrslu Daða Más Kristóferssonar og Birgis Þórs Runólfssonar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fól Daða Má og Birgi Þór, sem eru prófessor og dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, að gera úttekt á endurvigtun á fiski með tilliti til þess hversu mikil frávik í ísprósentu kæmu í raun og veru fram við eftirlit Fiskistofu.
Sjö ára tímabil
Athugunin, „mat á áreiðanleika endurvigtunar, umfangi og ástæðum frávika og hugsanlegum úrbótum“, byggir á gögnum Fiskistofu frá 1. janúar 2012 til 5. maí 2019.
Borin var saman ísprósenta í afla sem er endurvigtaður, eftir því hvort eftirlitsmenn Fiskistofu stóðu yfir vigtuninni eða ekki. Alls eru 9700 mælingar í gagnaskránni og eru þar borin saman íshlutföll við yfirstöðu og almenna endurvigtun (þ.e. paranir fyrir hverja löndun og sjö fisktegundir, slægt og óslægt, hver tegund með minnst 100 gildar mælingar).
Skipulegt ofmat á íshlutfalli
Í skýrslunni kemur fram að frávik í ísprósentu benda til skipulegs ofmats á íshlutfalli um 1,7% að meðaltali allt tímabilið 1. janúar 2012 - 5. maí 2019, mest fyrir löngu, 2,46%, minnst fyrir skarkola, 0,28% en 1,8% og 1,96% fyrir þorsk og ýsu.
Fram kemur að frávik hafi mælst talsvert meiri fyrir slægðan afla en óslægðan, án þess að á því sé nein augljós skýring. Allt bendir til þess að fáir aðilar standi að baki stórs hluta frávikanna. Umtalsvert stærri frávik voru hjá smærri fyrirtækjunum, yfir 3% borið saman við rúm 2% hjá þeim stærri. Minnst eru frávik hjá fiskmörkuðum.
Veruleg jákvæð breyting eftir 2015
Fiskistofa hóf birtingu á frávikum í endurvigtun árið 2015 og hefur frá 12. júlí 2016 birt nöfn fyrirtækjanna sem um ræðir. Gögnunum var skipt upp, fyrir og eftir 12. júlí 2016, og kom í ljós að eftir nafnbirtingu Fiskistofu minnkuðu frávikin um 47% að meðaltali, úr 1,89% í 1,09%. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2019 voru frávikin aðeins um 0,4%.
Vorið 2017 tók einnig í gildi lagabreyting sem kveður á um að komi í ljós verulegt frávik á íshlutfalli við eftirlit skuli Fiskistofa standa yfir endurvigtun hjá viðkomandi aðila og á hans kostnað í allt að sex vikur.
Skýrsluhöfundar benda á að niðurstöður úr greiningunni megi nota til að skipuleggja enn frekar áhættumiðað eftirlit og álykta í lokin:
„Niðurstöðurnar benda til þess að aukið eftirlit með minni (samþættum) aðilum og áframhald á aðgerðum Fiskistofu sé líklegt til að halda þessu vandamáli í skefjum“.
Skýrsluna–mat á áreiðanleika endurvigtunar, umfangi og ástæðum frávika og hugsanlegum úrbótum, má finna hér.