Áfram afgerandi stuðningur landsmanna við alþjóðasamstarf
Þátttaka Íslands í alþjóðlegu samstarfi nýtur afgerandi stuðnings meirihluta þjóðarinnar, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið. Alþjóðastofnanir njóta sömuleiðis mikils stuðnings, en sérstaklega áberandi er ríkur vilji landsmanna til að rækta áfram norrænt samstarf. Þá benda niðurstöðurnar einnig til þess að þjóðin sé afar fylgjandi alþjóðaviðskiptum og þróunarsamvinnu.
Könnunin var gerð dagana 3. til 12. mars síðastliðinn og eru niðurstöður hennar í samræmi við sambærilega könnun sem framkvæmd var síðasta vor. Líkt og þá telur drjúgur meirihluti þjóðarinnar að hagsæld Íslands byggist að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (73,8%) og alþjóðlegum viðskiptum (77,5%).
Langmestur stuðningur er þó við norrænt samstarf en liðlega níu af hverjum tíu Íslendingum eru fylgjandi virkri þátttöku Íslands í samstarfi Norðurlandaþjóða. Þátttaka Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna (77,3%) sem og mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (72,6,8%) nýtur einnig afgerandi fylgis. Þá telja tveir af hverjum þremur (67,7%) að seta Íslands í mannréttindaráðinu hafi jákvæð áhrif á þróun mannréttinda á heimsvísu.
„Það er gott að fá enn á ný staðfestingu á því að viðhorf þjóðarinnar til alþjóðasamstarfs er jákvætt og að yfirgnæfandi meirihluti styðji þátttöku okkar í starfi alþjóðastofnana,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Norræna samstarfið er í sérflokki og það er fátítt að sjá svo afgerandi niðurstöðu. Ég er líka afskaplega ánægður með stuðninginn við Sameinuðu þjóðirnar, alþjóðlega þróunarsamvinnu og setu Íslands í mannréttindaráðinu. Hins vegar þurfum við að miðla betur upplýsingum um þau verkefni utanríkisþjónustunnar sem fólk þekkir síður til,“ segir Guðlaugur Þór.
Spurt var um bæði þekkingu sem og viðhorf svarenda til þátttöku Íslands í störfum ýmissa alþjóðastofnana. Niðurstöðurnar sýna að eftir því sem þekking á stofnunum er meiri reynast viðhorfin almennt jákvæðari. Undantekningin er Norðurskautsráðið, þar sem aðeins rúmur fimmtungur telur sig þekkja vel til, en nýtur engu að síður stuðnings liðlega 75 prósenta þjóðarinnar. Stuðningur við Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) mælist tæplega 60 prósent, og liðlega 49 prósent styðja Evrópuráðið í Strassborg. Þá má geta þess að Alþjóðabankinn – sem innan við 10 prósent þekkja til – nýtur stuðnings ríflega 30 prósenta svarenda.
Tæplega 60 prósent landsmanna styðja aðild Íslands að EES-samningum (58,2%), en neikvæðir eru rétt um 11 prósent svarenda. Þá styður rétt tæplega helmingur, eða 48,9 prósent, aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu meðan rétt innan við 20 prósent gera það ekki.
Könnunin, sem gerð var af Maskínu, sýnir að langflestum þykir mikilvægt að íslensk stjórnvöld veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð (77,8%). Sérstaklega á það við um mannúðaraðstoð þar sem ríflega 90 prósent aðspurðra telur hana mjög eða fremur mikilvæga. Þá finnst liðlega fjórum af hverjum tíu að það eigi að vera eitt af forgangsmálum íslenskra stjórnvalda að draga úr fátækt í þróunarríkjum á meðan rúmlega fjórðungur er því ósammála. Þá telja rösklega 46 prósent svarenda að einkafyrirtæki gegni mikilvægu hlutverki við að styðja við sjálfbæra þróun í þróunarríkjum, en á sama tíma eru liðlega 18 prósent því ósammála.
Samkvæmt könnuninni er almennur stuðningur við þróunarsamvinnu og sýna niðurstöðurnar að 70 til 84 prósent svarenda eru jákvæð varðandi ýmsa þætti hennar. Til að mynda hvort þróunarsamvinna eigi markvisst að stuðla að aukinni virðingu fyrir mannréttindum í þróunarríkjum (83,6%), hvort hún leiði til frekari friðsældar og sanngirni (75,8%), hvort hún sé árangursrík leið til að draga úr fátækt í þróunarríkjum (73,9%), hvort hún stuðli að minnkandi straumi flóttamanna (72,5%), hvort þróunarsamvinna eigi markvisst að stuðla að jafnrétti kynjanna í þróunarríkjum (77,2%) og loks hvort hún eigi markvisst að stuðla að umbótum í umhverfis- og loftslagsmálum, (70,4%).
Markmið könnunarinnar er að bæta upplýsingamiðlun til almennings um störf og stefnu utanríkisþjónustunnar. Svarendur úr Þjóðgátt Maskínu voru 925.
Helstu niðurstöður könnunarinnar má finna hér.