Aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri eftir snjóflóðin í janúar
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær að forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti verði falið að annast framkvæmd og eftirfylgni aðgerða á Flateyri í samræmi við tillögur aðgerðahóps sem skipaður var í kjölfar snjóflóðanna í janúar síðastliðnum.
Aðgerðahópurinn setti fram tillögur um fimmtán aðgerðir sem allar geta haft jákvæða þýðingu fyrir framtíðarþróun samfélagsins og uppbyggingu. Tillögurnar voru til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í byrjun mars.
Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt að leggja 13 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu á árinu 2020 til að fjármagna nýsköpunarstyrki og stöðu verkefnastjóra í nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Þá verður 26 milljónum varið í verkefnið á næsta ári. Ráðinn verður verkefnastjóri, staðsettur á Flateyri á vegum Vestfjarðarstofu, í samstarfi við Ísafjarðarbæ. Staða verkefnastjóra verður auglýst fljótlega.
Til að fylgja eftir öðrum tillögum aðgerðarhópsins og tryggja framgang þeirra verður skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum ofangreindra ráðuneyta sem falin verður ábyrgð á verkefninu í samstarfi við ábyrgðar- og samstarfsaðila einstakra aðgerða.
Forgangsverkefni er endurmat snjóflóðavarna fyrir ofan byggðina á Flateyri og gerð framkvæmdaáætlunar þar að lútandi. Samhliða verða möguleikar á vörnum fyrir hafnarsvæði sem og aðgerðir til að tryggja öryggi vegfarenda um Flateyrarveg við Hvilftarströnd í forgangi. Undirbúningur þessara verkefna er á áætlun en gert er ráð fyrir að Veðurstofan skili tillögum og greinargerð um framkvæmdir fyrir árslok.
Í febrúar síðastliðnum undirrituðu mennta- og menningarmálaráðherra og skólastjóri Lýðskólans á Flateyri samning, um 70 milljón króna framlag ríkisins, sem tryggir rekstur skólans næsta skólaár.
Aðrar aðgerðir eru í vinnslu, svo sem er varðar skipulag og viðbúnað heilbrigðisþjónustu, rafmagnsöryggi og skoðun á leiðum til að bæta almenningssamgöngur milli Flateyrar og annarra byggðakjarna á svæðinu. Þá er stefnt að uppbyggingu heilsugæslusels.