Losun Íslands hélst stöðug milli 2017 og 2018
Umhverfisstofnun hefur skilað landsskýrslu (National Inventory Report) um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) þar sem er að finna upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2018. Losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands breyttist óverulega milli áranna 2017 og 2018, eða minnkaði um 0,1%.
Frá árinu 2005, sem er viðmiðunarár fyrir skuldbindingar Íslands, hefur losun minnkað um 6,3%. Losun Íslands náði hámarki árið 2007 en síðan dró úr henni og hefur hún haldist fremur stöðug síðan 2012.
Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að draga úr losun um 29% fram til ársins 2030 en það er í samræmi við sameiginlegt markmið Evrópusambandsins, Noregs og Íslands. Stjórnvöld vilja þó gera enn betur og stefna að 40% samdrætti á tímabilinu og kolefnishlutleysi árið 2040.
Helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru vegasamgöngur (33%), olíunotkun á fiskiskipum (18%), nytjajarðvegur (8%), kælimiðlar (6%) og urðun úrgangs (7%).
Skýrslu um losun Íslands er skilað árlega til loftslagssamnings SÞ en skv. reglum samningsins á skýrslan að taka til upplýsinga fyrir tímabilið frá 1990 til næstsíðasta árs áður en skýrslunni er skilað, í þessu tilviki til ársins 2018.
Haustið 2018 gaf ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs út fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur undanfarin misseri leitt vinnu við uppfærslu áætlunarinnar og er útgáfu hennar að vænta á næstu vikum. Ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey var nýlega falið að rýna áætlunina áður en hún verður birt og meta þá mælikvarða sem þar eru settir fram. Vinnunni er ætlað að skila góðri yfirsýn yfir árangur og framgang aðgerða, svo tryggt sé að markmið stjórnvalda um samdrátt í losun náist.
Frétt Umhverfisstofnunar um landsskýrslu Íslands
Útdráttur úr landsskýrslu Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda