Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið

Ræddu um að styrkja viðbragðsáætlanir Atlantshafsbandalagsins vegna heimsfaraldra

Frá höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og varnarmálaráðherra, tók þátt í fjarfundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins í dag þar sem viðbrögð Atlantshafsbandalagsins við COVID-19 heimsfaraldrinum voru í brennidepli. Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, tóku þátt í fundinum, ásamt Joseph Borell, utanríkismálastjóra ESB.

Bandalagið hefur lagt áherslu á að tryggja áframhaldandi kjarnastarfsemi á sama tíma og heilbrigði og öryggi starfsfólks og liðsafla í aðgerðum þess nýtur forgangs. Bandalagið aðstoðar við samræmingu á stuðningi herafla bandalagsríkja við borgaralega viðbragðsaðila, s.s. vegna flutninga á lækningavörum, uppsetningu á tímabundinni sjúkrahúsaðstöðu og landamæragæslu.

Á fundinum var meðal annars rætt um að styrkja viðbragðsáætlanir bandalagsins vegna heimsfaraldra. „Það er full ástæða til að horfa til framtíðar og leggja mat á hvernig gera megi enn betur þegar aðstæður sem þessar skapast, efla viðnámsþrótt ríkjanna, bæta áætlanagerð og þétta alþjóðlegt samstarf um neyðarviðbrögð,“ segir Guðlaugur Þór.

Ráðherrarnir ræddu einnig fjölgun falsfrétta og áróðurs í tengslum við COVID-19 faraldurinn. „Innan bandalagsins er mikill vilji til að auka samstarf til að sporna betur við villandi upplýsingamiðlun, því herferðir af slíku tagi miða oftar en ekki að því að grafa undan öryggi ríkja og trausti almennings til stofnana og stjórnvalda,“ segir Guðlaugur Þór.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta