Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga
Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fól að fjalla um menntun hjúkrunarfræðinga og leggja til leiðir sem eru til þess fallnar að fjölga þeim sem ljúka námi í faginu hefur skilað ráðherra tillögum sínum. Tillögur hópsins lúta að menntun, fjölgun námsplássa, útvíkkun á starfssviði hjúkrunarfræðinga, fjölbreyttum starfstækifærum og ímynd hjúkrunar, m.a. með áherslu á sýnileika stéttarinnar.
Vilborg Ingólfsdóttir, formaður starfshópsins, fylgdi tillögunum úr hlaði á fundi hópsins með ráðherra í gær. Skýrslunni er skilað í skugga alheimsfaraldurs COVID-19 og bar fundurinn merki þess: „Aftur á móti er óhætt að segja að faraldurinn hafi beint kastljósinu að heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þeirra fjölmörgu fagstétta sem starfa innan þess og þá ekki síst hjúkrunarfræðinga. Ég tek heilshugar undir með þeim sem segja hjúkrunarfræðinga vera hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustunni,“ sagði heilbrigðisráðherra þegar hún tók við skýrslu starfshópsins.
Í skýrslu starfshópsins kemur fram að ásókn í hjúkrunarnám við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sé meiri en hægt er að anna að óbreyttu. Bæði þurfi að fjölga námsplássum og starfsfólki til að sinna kennslu og utanumhaldi og eins þurfi að efla getu til að sinna klínísku námi. Tillögur hópsins um úrbætur lúta meðal annars að þessu. Einnig er fjallað um aðgerðir til að sporna gegn brottfalli úr námi og starfi á fyrstu starfsárunum, um leiðir til að efla skilning á störfum hjúkrunarfræðinga til að m.a. ýta undir áhuga fleiri á að mennta sig í faginu og um ríkari aðkomu hjúkrunarfræðinga að ákvarðanatöku og ráðgjöf sem snúa að heilbrigðisþjónustu. Alls leggur starfshópurinn fram 11 megintillögur með frekari útfærslum í 38 liðum, líkt og lesa má í meðfylgjandi skýrslu.
Stórt verkefni sem varðar fleiri ráðuneyti
Skortur á hjúkrunarfræðingum er ekki séríslenskt vandamál, eins og glöggt kemur fram í nýrri, viðamikilli skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um stöðu hjúkrunar á heimsvísu; State of the World's Nursing 2020; Investing in education, jobs and leadership. Skortur á hjúkrunarfræðingum er mikill um allan heim, þótt staðan sé ólík á milli þjóða og heimshluta.
Heilbrigðisþjónustan hér á landi eins og svo víða annars staðar stendur frammi fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum og því mikilvægt að bregðast við með markvissum aðgerðum segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Verkefnið er stórt og varðar fleiri ráðuneyti en mitt. Því hef ég ákveðið að kynna skýrsluna á vettvangi ríkisstjórnarinnar og mun gera það innan skamms.“
Í starfshópnum sátu auk Vilborgar þau Gísli Kort Kristófersson fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Helga Gottfreðsdóttir, tilnefnd af Ljósmæðrafélagi Íslands, Herdís Gunnarsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Herdís Sveinsdóttir, tilnefnd af Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Hrund Scheving Thorsteinsson, tilnefnd af Landspítala, Margrét Hrönn Svavarsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri og Þórhalla Sigurðardóttir, tilnefnd af Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsmaður hópsins var Brynhildur Magnúsdóttir.