Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2020 Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Varnir, vernd og viðspyrna gegn efnahagslegum og félagslegum áföllum

  • Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna
  • Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja
  • Fyrirtækjum heimilað að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020
  • Virkni á vinnumarkaði - úrræði til að efla fólk í atvinnuleit
  • Geðheilbrigði í forgangi, átak gegn ofbeldi og fjarheilbrigðisþjónusta efld
  • Margþættur stuðningur við börn - sérstakur frístundastyrkur til tekjulágra
  • Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna Covid-19
  • Sumarúrræði fyrir námsmenn - störf, nám og frumkvöðlaverkefni
  • Efling matvælaframleiðslu með nýsköpun og markaðssetningu
  • Frekari sókn til nýsköpunar - fjárfestingar auknar, hærra hlutfall endurgreiðslu og þök hækkuð vegna rannsókna og þróunar

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. Þetta er hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa kynnt vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt greindu þau frá því að framlínufólk í heilbrigðisþjónustu sem búið hefur við aukið álag og mikla smithættu fái álagsgreiðslu. 

 

Fyrsti hluti Annar hluti
Varnir

1.  Hlutastarfaleiðin
11. Lokunarstyrkir
2. Brúarlán til atvinnulífs 12. Stuðningslán
3. Frestun skattgreiðslna 13. Jöfnun tekjuskatts
Vernd

4. Laun í sóttkví 14. Geðheilbrigði og fjarþjónusta
5. Barnabótaauki 15. Verndun viðkvæmra hópa
6. Úttekt séreignarsparnaðar 16. Sértækur stuðningur
Viðspyrna


7. Styrking ferðaþjónustu
17. Sókn í nýsköpun
8. Útvíkkun á „Allir vinna“
18. Sumarúrræði fyrir námsmenn
9. Greiðari innflutningur
19. Virkni í atvinnuleit
10. Fjárfestingaátak
20. Innlend verðmætasköpun

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð eru til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verða framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020. 

Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019. 

Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakkanum. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.

Til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði verður einkareknum fjölmiðlum tryggður sérstakur rekstrarstuðningur á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist. Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum. 

Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Þá stendur yfir kortlagning á viðkvæmum svæðum á landsvísu og stafræn þjónusta sveitarfélaga verður efld. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta