Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2020 Forsætisráðuneytið

39 mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði samþykktir

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu forsætisráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun um notkun 39 félagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra mælikvarða sem eru lýsandi fyrir hagsæld og lífsgæði á Íslandi.  Tillagan grundvallast á vinnu nefndar á vegum forsætisráðherra sem skilaði skýrslu um mælikvarðana í september sl. Mælikvarðarnir taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, þeir byggja á opinberum hagtölum og eru samanburðarhæfir við önnur lönd. Mælikvarðarnir eru í þremur flokkum og þrettán undirflokkum:

  • Félagslegir: Heilsa, menntun, félagsauður, öryggi íbúa og jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
  • Efnahagslegir: Hagkerfi, atvinna, húsnæði og tekjur.
  • Umhverfislegir: Loftgæði og loftslag, land, orka og úrgangur og endurvinnsla.

Tillögur nefndarinnar voru birtar í samráðsgátt Stjórnarráðsins í haust og bárust átta umsagnir. Bent var á að mælikvarðarnir væru mikilvægt verkefni til að ná betri yfirsýn yfir stöðu og þróun Íslands í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.  Ákveðið hefur verið að fá Hagstofu Íslands til að annast söfnun upplýsinga, miðlun og þróun mælikvarðanna. Í því ástandi sem nú er skiptir miklu máli að safna upplýsingum með reglubundnum hætti og er mælikvörðunum ætlað að gefa góða yfirsýn yfir lykilþætti velsældar á Íslandi og nýtast við stefnumótun stjórnvalda.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Verg landsframleiðsla og hagvöxtur eru vissulega mikilvægir mælikvarðar og verða það áfram en þessir þættir segja ekki alla sögu um lífsgæði fólks og árangur samfélaga. Mikilvægt er að hafa mælikvarða sem taka tillit til umhverfis, samfélags og efnahags. Í næstu fjármálaáætlun verða velsældaráherslur settar á oddinn en sennilega hefur almenn velsæld þjóðarinnar aldrei verið mikilvægari.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta