Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Degi umhverfisins fagnað í dag

Dagur umhverfisins er í dag, 25. apríl. Þetta er í 22. sinn sem haldið er upp á daginn sem tileinkaður er Sveini Pálssyni, fyrsta íslenska náttúrufræðingnum, sem fæddist þennan dag árið 1762.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga gegn orkuvinnslu í dag. Ráðherra tekur einnig þátt í Stóra plokkdeginum sem haldinn hefur verið um þetta leyti undanfarin ár og ber einmitt upp á Dag umhverfisins að þessu sinni. Að Stóra plokkdeginum stendur hópur einstaklinga sem kallar sig Plokk á Íslandi sem hvatt hefur til þess að almenningur fari út í dag og þrífi upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til og m.a. má finna á girðingum, í skurðum, á víðavangi og við strendur landsins. Þar sem hver og einn velur svæði eftir hentugleika þá er ekki um hópamyndun að ræða og brýtur Stóri plokkdagurinn því ekki gegn samkomubanni.

Á Degi umhverfisins er venjan að vera með hátíðarathöfn í tilefni dagsins þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra afhendir umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn og útnefnir Varðliða umhverfisins meðal skólabarna. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu um þessar mundir er afhendingu viðurkenninganna frestað að sinni, en áætlað er að þær verði afhentar síðar á þessu ári.


  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra tók þátt í Stóra plokkdeginum í dag. - mynd
  • Tekið til hendinni á Stóra plokkdeginum. - mynd
  • Ýmsir lögðu hönd á plóg.  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta