Sögulegar kvikmyndir aðgengilegar á nýjum vef
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði á dögunum streymisvefinn Ísland á filmu þar sem einstakt efni í vörslu Kvikmyndasafns Íslands er nú aðgengilegt almenningi. Nú eru á vefnum 300 myndskeið sem sýna Ísland á ótal vegu, mannlíf og menningu, sögulega atburði, náttúru og fjölbreytt mannlíf. Elsta efnið á vefnum er frá árinu 1906, en ekki er vitað til þess að eldri kvikmyndir frá Íslandi séu til. Vefurinn er unninn í samstarfi við Dansk Film Institut.
Í ávarpi sínu áréttaði ráðherra mikilvægi þess að almenningur hefði aðgengi að kvikmyndaarfinum, því án miðlunar væri hann í raun gleymdur. Hún sagði stórkostlegt að geta á vefnum skoðað horfinn heim, sem frumkvöðlar í íslenskri kvikmyndagerði hefðu fest á filmu.
„Á vinnu þessara frumkvöðla er nú risin glæsileg atvinnugrein, sem ekki aðeins gleður og varðveitir heldur skapar þúsundir starfa og milljarða í útflutningstekjur. Greinin hefur vaxið hratt á síðustu árum og ársvelta hans hefur þrefaldast á einum áratug. Hér hafa orðið til frábærar íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir, en líka sumar af stærstu bíómyndum kvikmyndaheimsins. Hér hefur orðið til mikil þekking og íslenskir kvikmyndaframleiðendur hafa getið sér gott orð,“ sagði ráðherra við opnunina. „Slíkt orðspor er sérstaklega verðmætt akkúrat núna, þegar okkar bíður að skapa ný störf og verðmæti fyrir samfélagið. Stjórnvöld þurfa að styðja við greinina og hafa þegar veitt aukalega 120 m. kr. í kvikmyndasjóð – til að þróa ný verkefni sem vonandi skapa störf og verðmæti, bæði menningarleg og veraldleg.“
Í ráðuneytinu er unnið að gerð kvikmyndastefnu til 2030 og mun hún líta dagsins ljós fljótlega. Stefnan nær meðal annars til kvikmyndamenningar, menntunar í kvikmyndagerð og eflingu kvikmyndalæsis, aukinnar miðlunar íslensk kvikmyndaarfs- og efnis og samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndaframleiðslu á alþjóðamarkaði.