Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfshópur skipaður til að tryggja lagaumhverfi niðurdælingar CO2 með CarbFix-aðferð

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna drög að frumvarpi sem er ætlað að tryggja að niðurdæling koldíoxíðs (CO2) með CarbFix-aðferð Orkuveitu Reykjavíkur falli að Evrópureglum um kolefnisföngun og geymslu.

Tilskipun Evrópusambandsins (ESB) um kolefnisföngun og geymslu var innleidd í íslensk lög árið 2015 en innleiðingin fól í sér að skilgreind tilraunaverkefni um kolefnisföngun og geymslu voru heimiluð á Íslandi. Lögin kváðu á um endurskoðun ákvæða er vörðuðu almennar heimildir til niðurdælingar og geymslu CO2 eigi síðar en árið 2020.

Stjórnvöld undirrituðu síðastliðið sumar viljayfirlýsingu ásamt fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur og þeirra stóriðjufyrirtækja á Íslandi sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Samkvæmt yfirlýsingunni verður kannað til hlítar hvort CarbFix aðferð Orkuveitu Reykjavíkur geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega til þess að draga úr losun CO2 frá stóriðju á Íslandi. Vinna starfshópsins felst í gerð frumvarps sem er ætlað að tryggja að niðurdæling CO2 með CarbFix aðferð Orkuveitu Reykjavíkur falli að ofangreindum reglum ESB og komi til frádráttar losunar CO2 í ETS kerfinu í samræmi við reglur þar að lútandi.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

  •  Helga Jónsdóttir, formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  •  Íris Bjargmundsdóttir, fulltrúi ráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel,
  •  Íris Lind Sæmundsdóttir lögmaður, tilnefnd af Orkuveitu Reykjavíkur,
  •  Hera Guðlaugsdóttir sérfræðingur, tilnefnd af Umhverfisstofnun,
  •  Helga Rut Arnardóttir lögfræðingur, tilnefnd af Umhverfisstofnun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta