Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mælt fyrir frumvörpum um skipta búsetu barna, peningaþvætti og þjóðkirkjuna

Dómsmálaráðherra mælti í dag á Alþingi fyrir þremur frumvörpum sem lúta að skiptri búsetu barna, vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og þjóðkirkjunnar. Um frumvörpin má lesa nánar í fréttunum hér að neðan:

Breytingar á barnalögum

Í frumvarpi til breytinga á barnalögum er lagt til að foreldrar, sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geti samið um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir breytingum á ýmsum öðrum lögum til að tryggja þau réttaráhrif sem fylgja skiptri búsetu barns.

Stuðlar að sátt og jafnri stöðu

Í framsögu dómsmálaráðherra kom fram að markmið þeirra breytinga sem lagðar væru til í frumvarpinu séu að stuðla að sátt og jafnari stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum. Ekki er gert ráð fyrir að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum, en gert er ráð fyrir því að barn búi álíka jafnt til skiptis hjá foreldrum. Að öðru leyti er það í höndum foreldra að útfæra það fyrirkomulag sem hentar best þörfum barnsins.

Frumvarpið felur í sér almennar breytingar á ákvæðum um framfærslu barns og meðlag sem munu auka samningsfrelsi foreldra. Í frumvarpinu er lagt til að afnema skyldu til að staðfesta samning foreldra um meðlag við skilnað, sambúðarslit eða við ákvörðun um forsjá eða lögheimili barns. Þess í stað er lögð áhersla á að foreldrar sem búa ekki saman beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu barns.

Einnig felur frumvarpið í sér að barnalög beri skýrlega með sér þær forsendur sem verða að liggja til grundvallar samningum foreldra um tiltekið fyrirkomulag forsjár, búsetu og umgengni. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldrar geti samið með ýmsum hætti og er mikilvægt að foreldrar átti sig á því hvenær heimild til að semja um skipta búsetu barns á við.

Aukinn réttur barns til áhrifa á eigin mál

Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Með breytingunum hefur barn kost á að tjá foreldri afstöðu sína og geta foreldrar eftir atvikum samið um eða gert kröfur um breytingar á fyrirliggjandi ákvörðunum. Með þessu nýja ákvæði í barnalögum er stefnt að því að styrkja rétt barns til að beita sér í málum sem líkleg eru til að hafa grundvallaráhrif á velferð þess og líðan.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. apríl 2021 en í frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að fram að gildistöku verði unnið að breytingum á fleiri lögum og reglugerðum sem heyra undir félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti til að tryggja að fullu þau réttaráhrif sem felast í skiptri búsetu barns.

 

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Dómsmálaráðherra sagði í framsögu sinnin að það væri skýr vilji íslenskra stjórnvalda að taka baráttuna gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna föstum tökum.

Milliliðalaus aðgangur geymsluhólfa og reikninga

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót skrá um bankareikninga þar sem stjórnvöld sem sinna rannsókn mála sem tengjast peningaþvætti geti milliliðalaust nálgast upplýsingar um bankareikninga og geymsluhólf einstaklinga og lögaðila. Þá er kveðið á um að settar verði skorður við nafnlausri notkun fyrirfram greiddra korta.

Fjölgun þeirra sem eru í áhættu vegna stjórnmálalegra tengsla

Einnig er lagt til að gildissvið laga um peningaþvætti verði útvíkkað, þannig að fleiri aðilar falli undir lögin, þar með talið lánveitendur, bifreiðaumboð og bifreiðasalar. Lögð er til breyting á skilgreiningu einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla þannig að til þess hóps teljist einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka, í stað framkvæmdastjórna eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting á lögum um skráningu raunverulegra eigenda að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með almannaheillafélögun með starfsemi yfir landamæri. Þá er lögð sú skylda á skráningarskylda aðila að þeir þurfi að tryggja réttar upplýsingar um raunverulega eigendur. 

Frumvarpinu er meðal annars ætlað að ljúka við innleiðingu á fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins í innlenda löggjöf, eins og Íslandi er skylt vegna aðildar sinnar að EES-samningnum. Jafnframt er því ætlað að tryggja að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem það hefur undirgengist með aðild sinni að FATF.

Breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar

Dómsmálaráðherra rakti í framsögu sinni tilefni frumvarpsins en það má rekja til viðbótarsamkomulags sem undirritað var af fulltrúum íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 6. september sl., um útfærslu og endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi.

Til þess að tryggja að tiltekin efnisatriði samningsins öðlist lagagildi var dómsmálaráðherra falið samkvæmt samningnum og viljayfirlýsingu sem fylgdi honum að leggja fram frumvarp á Alþingi sem feli í sér ýmsar lagabreytingar sem tengjast málefnum kirkjunnar.

Í samræmi við aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru að brott falli ákvæði í lögum sem fjalla um Kristnisjóð, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð og héraðssjóði. Í stað þeirra framlaga sem runnið hafa til sjóðanna samkvæmt fyrri samningi og lögum sem um sjóðina gilda mun ríkið greiða þjóðkirkjunni árlegt framlag samkvæmt samkomulaginu. Árleg greiðsla verði ótengd sóknargjöldum, eins og nú er um suma sjóðina.

Þær greiðslur sem kirkjan fær samkvæmt samkomulaginu munu hér eftir taka breytingum á þeim sömu almennu launa-og verðlagsforsendum sem liggja til grundvallar fjárlögum hvers árs. Samkvæmt samkomulaginu er þjóðkirkjunni ætlað að taka við eignum og skuldbindingum sjóðanna ásamt þeim verkefnum sem þeim eru nú falin í lögum, auk þess sem kirkjuþing er ætlað að setja nánari reglur um verkefni sjóðanna. Er það í samræmi við þá stefnu að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. 

Breytt fyrirkomulag greiðslna vegna útfara

Svo sem stefnt er að í viljayfirlýsingu þeirri er fylgdi samkomulaginu er síðan lögð til breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sem felur í sér að brott falli ákvæði um að kirkjugarðsstjórn beri kostnað af prestþjónustu vegna útfara. Er þar um að ræða þjónustu presta við útfarir, kistulagningar og athafnir við jarðsetningu duftkers eða kistu. Áætlað er að kirkjuþing setji gjaldskrá um þjónustu kirkjunnar, þar á meðal um prestþjónustu.

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta