Hoppa yfir valmynd
6. maí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Markmiðið að styrkja tjáningarfrelsið

Dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., með það að markmiði að styrkja tjáningarfrelsi með því að bæta umgjörð lögbannsmála á hendur fjölmiðlum.

Dómsmálaráðherra sagði lögbann á fjölmiðlaumfjöllun fela í sér fyrirframtakmörkun á tjáningarfrelsi sem gera verði sérstaklega ríkar kröfur til samkvæmt stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar reyni á mörk tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar, auk þess sem lögbann af þessu tagi geti hamlað eða komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu þegar tjáning um málefni sem varði almenning séu fyrirfram takmörkuð, svo sem í aðdraganda kosninga. Slíkt tjón verði tæpast metið til nánar tiltekinnar fjárhæðar og vandséð hver ætti þá kröfu um greiðslu bóta. Augljóst sé hvaða þýðingu fjölmiðar hafa fyrir lýðræðislega umfjöllun og því brýnt að úr lögbannsmálum þeim á hendur sé leyst skjótt og greiðlega.

Ráðherra sagði að í frumvarpinu væri því að finna tillögur sem ætlað sé að styrkja umgjörð lögbannsmála og hraða málsmeðferðinni eftir því sem kostur væri, að gættum réttindum gerðarbeiðanda og gerðarþola við slíka gerð. Við mótun þeirra tillagna sem frumvarpið hefur að geyma hafi verið komið til móts við þessi sjónarmið án þess að stefna í hættu þeirri málsmeðferð sem nú þegar er við lýði við bráðabirgðagerðir samkvæmt gildandi lögum.

Nánar má fylgjast með framgangi málsins hér á vef Alþingis.

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta