Hoppa yfir valmynd
7. maí 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ávarp ráðherra á ársfundi NSA

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra óskaði Nýsköpunarsjóði atvinnulífisins til hamingju með góða útkomu síðasta árs í erindi sínu á ársfundi sjóðsins. Vegna aðstæðna fór fundurinn fram með fjarfundabúnaði að þessu sinni.

Ráðherra fjallaði um mikilvægi nýsköpunar fyrir samfélagið og hversu mikið nýsköpun hefði minnt á sig á undanförnum vikum, sem og mikilvægi fjármagns fyrir nýsköpunarfyrirtæki og fjárfesta.

„Við erum einmitt rækilega minnt á mikilvægi nýsköpunar nú um stundir þegar við göngum í gegnum eina dýpstu efnahagskreppu sem sögur fara af. Nú þurfum við að leita nýrra leiða og virkja hugvitið til nýrra lausna. Þess vegna höfum við á undanförnum vikum spýtt í lófana og lagt okkur enn meira fram um að ýta í framkvæmd þeim málefnum sem sett voru á oddinn í nýsköpunarstefnu síðasta haust,“ sagði nýsköpunarráðherra í ræðu sinni.

Meðal þeirra aðgerða sem ráðherra vísar til er stofnun sjóðsins Kríu fyrir fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Fyrirhugað er að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sjái um umsýslu sjóðsins.  „Stofnun Kríu er að okkar mati mikilvæg aðgerð, ekki aðeins til að auka aðgengi sprotafyrirtæki að áhættufjármagni á fyrstu stigum, heldur einnig að stuðla að vexti og þroska fjármögnunarumhverfis hér á landi í samvinnu stjórnvalda og fjárfesta. Ég er sannfærð um að þessi stuðningur mun verða mikilvægur þáttur í því að hér vaxi upp öflugt umhverfi frumkvöðlamennsku og nýsköpunar sem síðan skili sér í öflugum þekkingariðnaði og nýjum útflutningsgreinum. Við leggjum áherslu á að frumvarp um Kríu verði samþykkt á þessu vorþingi og í ljósi Covid aðstæðna, leggjum við einnig til að framlög í Kríu verði aukin á þessu ári, að því gefnu að vísifjárfestar óski eftir framlagi úr sjóðnum.“

Þórdís Kolbrún fjallaði einnig um „stuðnings-Kríu“, en unnið er að tillögum um tímabundið mótframlag í formi lána, til efnilegra sprotafyrirtækja,  sem vegna breyttra aðstæðna eru að lenda í erfiðleikum með fjármögnun á þessu ári.  „Þessi stuðningur gengur undir vinnuheitinu „Stuðnings-Kría“ og vonum við að tillögur í þessa átt fái brautargengi á næstu vikum. Í þessum mikilvægu verkefnum, bæði hvað varðar Kríu og einnig í tillögum um Stuðnings-Kríu,  sjáum við fyrir okkur samstarf við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins um umsýslu þessarar fjármögnunar þó að „Kríurnar“ verði báðar sjálfstæð fjárfestingarverkefni,“ sagði nýsköpunarráðherra.

Lesa ávarp ráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta