Barnaþing komið til að vera
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók ásamt ríkisstjórninni allri við skýrslu barnaþings í vorblíðunni fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag. Hún sagði við það tækifæri að óhætt væri að halda því fram að barnaþing 2019 hefði tekist frábærlega og veitt ráðherrum og þingmönnum dýrmæta innsýn í þau málefni sem brenna á börnum. „Niðurstöðurnar verða okkur leiðarvísir til framtíðar. Barnaþing er komið til vera enda löngu tímabært að börn og ungmenni hafi aukin áhrif à ákvarðanir stjórnvalda,“ sagði Katrín.
Barnaþing var haldið í fyrsta sinn hér á landi síðastliðið haust en með nýorðnum breytingum á lögum um Umboðsmann barna skal það haldið annað hvert ár. Þingið skal fjalla um málefni barna og niðurstöður þess afhentar ríkisstjórn Íslands. Það voru þau Vigdís Sóley Vignisdóttir og Vilhjálmur Hauksson sem afhentu skýrsluna auk þess sem allir ráðherrarnir fengu svuntu með áletruninni Ég brenn fyrir réttindum barna.
Frétt um barnaþing í Hörpu 21.-22. nóvember 2019.