Hoppa yfir valmynd
8. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra tekur þátt í sérstökum fundi öryggisráðsins – 75 ár frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu

Guðlaugur Þór flytur ávarp sitt á fundi öryggisráðsins (skjáskot af útsendingu á Youtube) - mynd

Þess var minnst í dag á sérstökum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að sjötíu og fimm ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu. Utanríkisráðherrar tæplega 50 ríkja tóku þátt í fjarfundinum, þeirra á meðal Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Í ávarpi sínu minntist Guðlaugur Þór allra þeirra sem féllu í þessum hildarleik og rifjaði upp að við stríðslok hefði lýðum verið ljóst að þjóðir heims yrðu að starfa saman með árangursríkari hætti en áður.

„Sú sýn sem lá til grundvallar stofnunar og starfsemi Sameinuðu þjóðanna og annarra tengdra alþjóðastofnanna hefur þjónað mannkyninu vel í þeirri viðleitni að tryggja frið, efnahags- og samfélagslegar framfari, mannréttindi og lýðræði,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpi sínu. Hann segir að COVID-19 faraldurinn sem nú fer um heimsbyggðina sendir einmitt þessi sömu skilaboð til leiðtoga ríkja heims, um nauðsyn náinnar samvinnu.

Verðum að tryggja að fjölþjóðakerfið verði sterkara

„Það er undir okkur komið að standa af okkur þennan storm í sameiningu og tryggja að fjölþjóðakerfið, með öllum sínum kostum og göllum, komi sterkara en áður út úr þessum skakkaföllum,“ sagði Guðlaugur Þór. „Við skuldum það kynslóðinni sem fyrir 75 árum færði ómældar fórnir og sýndi á þeim tíma þá fyrirhyggju að efna til hinna Sameinuðu þjóða. En við skuldum framtíðarkynslóðum það ekki síður.“

Fundur öryggisráðsins í dag var skipulagður sem svokallaður Arria fundur, en það eru óformlegir fundir um málefni sem tengjast öryggisráðinu sem aðildarríki og ríki öryggisráðsins geta staðið fyrir en teljast ekki hluti af formlegri dagskrá ráðsins. Ríkjum gefst þannig meira svigrúm með efnisval og þátttakendur á fundunum. Fundirnir draga nafn sitt af Diego Arria, fyrrverandi fastafulltrúa Venesúela, sem fyrstu tók upp á því að skipuleggja slíka fundi í mars 1992 þegar Venesúela var með formennsku í ráðinu. 

  • Utanríkisráðherra tekur þátt í sérstökum fundi öryggisráðsins – 75 ár frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta