Molta nýtt í þágu loftslagsmála
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Vistorka á Akureyri undirrituðu í dag samning um tilrauna- og átaksverkefni um nýtingu á moltu til skógræktar, landgræðslu og landbúnaðar á Norðurlandi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið greiðir alls 15 m.kr. til verkefnanna, en þau eru hluti af loftslagsaðgerðum sem falla undir átaksverkefni ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 farsóttarinnar.
Í fyrsta lagi verður ráðist í skógræktarverkefni í hlíðum Hlíðarfjalls ofan Akureyrar. Þar verður molta nýtt í tilraun til trjáræktar og landgræðslu á rýru svæði í yfir 500 metra hæð auk þess sem grunnur verður lagður að 135 hektara skóglendi á Græna treflinum svokallaða, við efri mörk Akureyrar. Gert er ráð fyrir að allt að 10 háskólanemar starfi við verkefnið í átaksvinnu í sumar við undirbúning svæða, gróðursetningu, girðingarvinnu og dreifingu á moltu en ráðgert er að nýta um 1.800 rúmmetra af moltu á Glerárdal í þessum hluta verkefnisins.
Í öðru lagi verður molta nýtt við uppgræðslu örfoka lands á Hólasandi. Ætlunin er að stuðla að náttúrulegri gróðurframvindu með því að bera moltu á birki. Árangurinn verður metinn árlega næstu 5 árin.
Í þriðja lagi verður ráðist í tilraunaræktun á repju í Eyjafirði. Verkefnið er til rúmlega tveggja ára og er ætlunin að uppskera bæði sumar- og vetrarrepju.
Að verkefnunum þremur koma auk Vistorku og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Akureyrarbær, Landgræðslan, Skógræktin, Molta, Orkusetur og Landbúnaðarháskóli Íslands.
Lífrænn úrgangur er auðlind á villigötum. Urðun hans er kostnaðarsöm og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill meirihluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs kemur frá urðun úrgangs, einkum vegna losunar metans og annarra gróðurhúsalofttegunda. Stórbæta má nýtingu á lífrænum úrgangi, m.a. með því að vinna úr honum moltu. Hún hefur verið prófuð í landgræðslu og skógrækt en skoða þarf nánar hvernig hún reynist við mismunandi aðstæður.