Virðisaukaskattur greiddur óháð uppruna þjónustu
Í tilefni af umfjöllun um útboð á kynningarverkefnum á vegum stjórnvalda vill fjármála- og efnahagsráðuneytið árétta að virðisaukaskattur er greiddur af vöru eða þjónustu óháð því hvaðan hún er keypt. Meginreglan er sú að seljandi innheimti skattinn af kaupanda og skili honum í ríkissjóð en í þeim tilvikum þar sem vara eða þjónusta er keypt að utan fellur skattskyldan á kaupandann.
- Virðisaukaskattur er hlutlaus og hefur ekki áhrif á verðlagningu á þjónustu innlends eða erlends aðila
- Samkeppnissjónarmið eru innbyggð í virðisaukaskattskerfið
- Meginregla laga um virðisaukaskatt er sú að seljandi vöru eða þjónustu innheimtir skattinn og skilar í ríkissjóð
- Ef opinber stofnun kaupir þjónustu frá útlöndum, er opinbera stofnunin hins vegar virðisaukaskattskyld sem kaupandi þjónustunnar á grundvelli reglna um öfuga virðisaukaskyldu (e. reverse charge)
- Um er að ræða einföldun á skilum á virðisaukaskatti í alþjóðaviðskiptum
Dæmi 1. – Íslandsstofa kaupir þjónustu af innlendri auglýsingastofu. – Verð án vsk. er 1 m.kr. Íslandsstofa greiðir 1.240.000 m/vsk (1 m.kr.+240 þ.kr.) og auglýsingastofan skilar 240 þ.kr. vsk. í ríkissjóð.
Dæmi 2. – Íslandsstofa kaupir þjónustu af erlendri auglýsingastofu (C) – Verð án vsk er 1 m.kr. Íslandsstofa greiðir 1 m.kr. án vsk en þarf sjálf að skila 240 þ.kr. vsk. í ríkissjóð.
Virðisaukaskattur á ekki að hafa áhrif á verðmyndun í útboði, þrátt fyrir að innlendum aðila beri að leggja virðisaukaskatt á þjónustu sína. Skatturinn á því heldur ekki að hafa nein áhrif á það hvort þjónustan er keypt innanlands eða að utan; kaupandi þjónustunnar greiðir virðisaukaskattinn í báðum tilvikum.