Samskipti Íslands og Bretlands efld með samstarfsyfirlýsingu
Ísland og Bretland hafa gert með sér samkomulag um samstarf ríkjanna til næstu 10 ára. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu- og Ameríku, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu þess efnis í dag. Yfirlýsingunni er ætlað að efla tvíhliða samskipti ríkjanna með sameiginlegum framtaksverkefnum. Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað vegna kórónaveirunnar.
Ráðherra sagði að loknum fundi: „Um þessar mundir fagna Ísland og Bretland 80 ára afmæli stjórnmálasambands sín á milli. Í dag undirritaði ég sameiginlega yfirlýsingu með Bretlandi sem markar þáttaskil í samskiptum ríkjanna. Yfirlýsingin um sameiginlega sýn fyrir 2030 er vitnisburður um náin tengsl Íslands og Bretlands og áherslu beggja ríkja á að efla enn frekar samvinnu og samstarf á margvíslegum grunni.“
Í tilefni undirritunarinnar ræddu ráðherrarnir þau mikilvægu og sögulegu tengsl sem eru á milli ríkjanna á sviði efnahagsmála, fjárfestinga og viðskipta og möguleg tækifæri sem fælust í nýjum yfirgripsmiklum fríverslunarsamningi á þeim sviðum. Ráðherrarnir fögnuðu því að í síðustu viku var fyrsti fundur aðalsamningamanna um framtíðarsamband ríkjanna og voru sammála um að mikilvægt væri að hefja samningaviðræður um fríverslunarsamning sem fyrst með það að markmiði að hann taki gildi við lok árs.
Ráðherrarnir minntust þess að um þessar mundir eru 80 ár liðin frá því að Ísland og Bretland tóku upp stjórnmálasamband og að undirritun yfirlýsingarinnar væri tækifæri til þess að styrkja enn frekar samstarf þessara nágranna í Norður-Atlantshafi. Samstarfsyfirlýsingin, sem ber heitið Sameiginleg sýn fyrir 2030, byggir á sameiginlegum gildum ríkjanna á margvíslegum sviðum með það að markmiði að efla hagsæld, sjálfbærni og öryggi, jafnt innan ríkjanna sem og á alþjóðavísu.
Á grundvelli yfirlýsingarinnar setja Ísland og Bretland sér það markmið að efla tvíhliða og svæðisbundna samvinnu á komandi áratug og beita í þeim tilgangi reglubundnu samráði til að meta árangur, með megináherslu á eftirtalin sjö svið:
- Viðskipti og fjárfestingar
- Sjávarútveg
- Rannsóknir og nýsköpun
- Svæðisbundna og alþjóðlega samvinnu
- Varnar- og öryggismál
- Loftslagsbreytingar og norðurslóðir
- Tengsl þjóðanna
Sendiherra Íslands gagnvart Bretlandi og sendiherra Bretlands gagnvart Íslandi er falið það hlutverk að leiða verkefnið til að tryggja að markmiðum sé náð, árangur sé metin og samstarfið leiði í raun til þess ávinnings sem stefnt er að.