Hoppa yfir valmynd
14. maí 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sjálfbær þróun kaupmannsins á horninu, stafrænar flíkur og vatnavellíðan meðal styrkþega Hönnunarsjóðs

Í ljósi aðstæðna var ekki hægt að hafa úthlutun í tengslum við ársfund Hönnunarmiðstöðvar með tilheyrandi mannfögnuði eins og tíðkast hefur. Í staðinn teiknaði Rán Flygenring þessa lýsandi mynd af styrkafhendingunni sem ekki fór fram. Hér má sjá styrkþega ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ráðherra og Birnu Bragadóttur formanni stjórnar Hönnunarsjóðs.  - myndRán Flygenring

Hönnunarsjóður  hefur úthlutað 26 styrkjum til ólíkra verkefna á vegum hönnunar og arkitektúrs. Að þessu sinni voru 25 milljónum úthlutað en alls bárust 126 umsóknir um 237 milljónir.

Um metfjölda umsókna var að ræða í þessari úthlutun Hönnunarsjóðs og ljóst að ástandið í kjölfar Covid-19 faraldursins hafði áhrif á fjölda umsókna og virðist líka hafa haft áhrif á verkefnin sem sóttu um. Nýsköpun í kjölfar faraldurs og breyttri heimsmynd sem blasir við svo sem áhersla á stafrænar lausnir, sjálfbærni og matarsóun eru meðal verkefna sem hljóta styrki.

Í ljósi aðstæðna var ekki hægt að hafa úthlutun í tengslum við ársfund Hönnunarmiðstöðvar með tilheyrandi mannfögnuði eins og tíðkast hefur. Í staðinn teiknaði Rán Flygenring þessa lýsandi mynd af styrkafhendingunni sem ekki fór fram.

MAT. Sjálfbær þróun kaupmannsins á horninu, verkefni MStudio, hlaut hæsta styrkinn að þessu sinni, verkefnastyrk sem hljóðar upp á 3 milljónir króna. Um er að ráð heildstætt dreifihagkerfi fyrir matvæli sem hannað er í þeim tilgangi að lágmarka óþarfa dreifingu matvæla, bæta lífsgæði og minnka sóun.

Spaksmannsspjarir, fatamerki Bjargar Ingadóttur, hlaut næst hæsta styrkinn, 2 milljónir króna fyrir útfærslu á stafrænum flíkum í stafrænni verslun.

„Það er gott að sjá allan þennan fjölda umsókna hjá Hönnunarsjóði. Í þessum óvenjulegu aðstæðum höldum við áfram að hlúa að nýsköpun á öllum sviðum. Skapandi greinar auðga umhverfi okkar og tilveru og ég hvet ykkur til að sækja um í aukaúthlutun Hönnunarsjóðs síðar í mánuðinum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Mikill fjöldi umsókna í Hönnunarsjóð endurspeglar þörfina fyrir fjárfestingu í hönnunardrifnum verkefnum. Nú, sem aldrei fyrr, þarf að leita nýrra leiða, efla hönnunardrifna nýsköpun og ýta undir þróun atvinnulífs skapandi greina, með áherslu á jafnvægi milli umhverfis, lífsgæða, mannlífs og verðmætasköpunar,“ segir Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Hönnunarsjóðs.

Opið er fyrir umsóknir í aukaúthlutun Hönnunarsjóðs, átaksverkefni stjórnvalda í kjölfarið á COVID-19 heimsfaraldri. Hönnuðir, arkitektar og fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á hönnun eru hvött  til að sækja um. Umsóknarfrestur rennur út 18. maí næstkomandi og stefnt er að úthlutun 29. maí.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um styrkþega og umsóknir á heimasíðu Hönnunarsjóðs hér.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta