Hoppa yfir valmynd
19. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölþættar aðgerðir fyrir fatlaða einstaklinga

Málefni fatlaðs fólks - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið, í samræmi við tillögu ríkisstjórnar Íslands, að verja um 190 milljónum króna í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum úrræðum fyrir fatlaða. Um er að ræða margvíslegar aðgerðir sem miða að því að auka þjónustu við bæði langveik og fötluð börn, og fullorðna einstaklinga sem glíma við fötlun.

Settar verða á laggirnar tvær sumardvalir, eða ævintýrabúðir, fyrir langveik og fötluð börn sem verða staðsettar á Suðvesturhorninu og á Norðurlandi. Hver sumardvöl mun bjóða upp á dvöl fyrir 10-15 börn á hverjum stað  á hverjum tíma, í eina viku í senn. Alls verður boðið upp á sumardvöl í 11 vikur í sumar og munu því um 200 börn geta nýtt sér sumardvölina sé miðað við að börn dvelji í eina viku í sumarbúðunum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Styrktarfélag lamaðra og fatlaða og er gert ráð fyrir því að fjölskyldur greiði uppihald en ríkið laun og launatengd gjöld.

Landshlutateymi fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra verður komið á fót á Suðurnesjum sem tilraunaverkefni. Markmiðið með landshlutateyminu er að auka þekkingu á færni í þjónustu við fötluð börn í heimabyggð, bæta grunnþjónustu þjónustukerfa við fötluð börn og fjölskyldur þeirra í héraði með auka samþættingu miðlægum stuðningi og eftirfylgd.

Boðið verður upp á dagþjónustu fyrir fullorðna fatlaða einstaklinga í allt sumar til þess að ekki verði rof á þjónustu. Alhliða stuðningur verður á dagtíma, sem meðal annars felur í sér stuðning í samfélagsfærni  sem styrkir hópinn til þess að takast á við afleiðingar Covid- 19.

Þá verður sérstakur stuðningur við fötluð börn innflytjenda og foreldra aukinn. Fötluð börn innflytjenda eru nú um 30% þeirra sem vísað er til Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins. Verkefnastjóri mun annast sérstakan stuðning við þennan hóp og unnið verður að gerð fræðslu- og þjálfunarefnis, meðal annars til þess að auka samfélagsfærni á erlendum tungumálum til þjálfunar fyrir fötluð börn innflytjenda.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við vitum að viðkvæmir hópar verða fyrir miklum áhrifum vegna Covid-19 faraldursins. Það er því mjög mikilvægt að við aukum úrræði fyrir bæði langveik og fötluð börn, sem og fullorðna einstaklinga sem glíma við fötlun. Aðgerðirnar sem við erum að ráðast í núna eru hluti af félagslegum aðgerðapakka þar sem við ætlum að grípa þá hópa sem verða fyrir miklum áhrifum vegna faraldursins.”

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta