Miklar breytingar í málefnum barna – frumvarpsdrög kynnt opinberlega
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hefur sett þrjú frumvörp sem varða málefni barna í samráðsgátt stjórnvalda, til samráðs við almenning. Ráðherra hefur lagt áherslu á málefni barna í embætti sínu og undanfarin tvö ár hefur farið fram margþætt vinna við endurskoðun á félagslegri umgjörð barna og fjölskyldna þeirra með snemmtækan stuðning, samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir að leiðarljósi.
Frumvörpin eru jafnframt unnin í samstarfi við þverpólitíska þingmannanefnd um málefni barna og fulltrúa allra hlutaðeigandi ráðuneyta. Þau hafa jafnframt farið í gegnum mikið samráð á fyrri stigum og fengið umfjöllun fjölmargra annarra aðila á vettvangi ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Markmiðið með frumvörpunum er að auka gæði þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og munu þau hafa áhrif á hvernig stofnanir og starfsmenn í mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfinu hlúa að börnum.
Vinna við frumvörpin er nú komin á það stig að rétt þykir að veita almenningi færi á beinni aðkomu að henni. Börn og ungmenni, ásamt fólki sem starfar í nærumhverfi barna, eru sérstaklega hvött til þess kynna sér tillögurnar og lýsa áliti sínu á þeim. Drögin eru að frumvörpum til laga um:
- Samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
- Barna- og fjölskyldustofu.
- Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
Þeim breytingum er felast í frumvörpunum er ætlað að stuðla að aukinni velferð og farsæld barna í barnvænu, heilsueflandi og valdeflandi samfélagi. Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eigi að hafa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi. Frumvörpin fela meðal annars í sér auknar skyldur á fullorðna í nærumhverfi barns til að bregðast við ef þeir verða þess varir að barnið þurfi stuðning og að stofnanir sem veita barni þjónustu muni bera auknar skyldur til samvinnu um þjónustu í þágu barns. Þá er gert ráð fyrir að öllum börnum og foreldrum þeirra verði tryggður aðgangur að sérstökum tengilið þjónustu sem getur veitt leiðbeiningar um hvernig nálgast eigi þjónustu og annan stuðning eftir því sem þörf er á.
Samhliða drögum að frumvarpi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eru birt drög að frumvörpum til laga um tvær nýjar ríkisstofnanir, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þeim stofnunum er ætlað að styðja við samþættingu þjónustu í þágu barna auk þess sem þær eiga að taka við öðrum verkefnum á sviði velferðarþjónustu.
Barna- og fjölskyldustofu er ætlað að framkvæma verkefni sem tengjast þjónustu í þágu barna á grundvelli ákveðinna laga og fylgjast með stöðu og velferð barna á landsvísu. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ætlað að fara með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli ákveðinna laga. Stofnunin myndi til að mynda þróa gæðaviðmið, veita rekstrarleyfi, o.fl.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er fagnaðarefni að geta kynnt þessi frumvarpsdrög opinberlega. Ein ástæða þess að ég vildi verða barnamálaráðherra var að ég vildi gera stórtækar breytingar í málefnum barna og fjölskyldna, þessi frumvarpsdrög eru mikilvægt skref í því ferli. Þessar breytingar munu valda straumhvörfum í íslensku samfélagi. Ég hvet alla til að kynna sér frumvörpin og taka áfram þátt í að móta framtíðina fyrir börnin okkar.“
Frumvörpin verða til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til 17. júní nk.
Umsagnir sem berast verða svo grundvöllur áframhaldandi vinnu við frumvörpin þrjú og við frekari umbætur sem eru fyrirhugaðar á þjónustu í þágu barna.