Fjölbreytt sumarstörf fyrir námsmenn hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og stofnunum
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur auglýst sjö sumarstörf fyrir námsmenn en störfin eru hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 farsóttarinnar. Þá hafa margar stofnanir ráðuneytisins auglýst störf fyrir námsfólk í sumar.
Störfin sem ráðuneytið hefur auglýst lúta m.a. að skilgreiningu víðerna utan miðhálendisins, hringræna hagkerfinu, reglugerðavinnu og endurskoðun laga. Þá er leitað að háskólanemum til að vinna við bókasafn og skjalavörslu í ráðuneytinu.
Nánari upplýsingar um sumarstörf í ráðuneytinu á vef Vinnumálastofnunar
Stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins auglýsa einnig fjölbreytt störf víða um land. Meðal annars auglýsir Veðurstofa Íslands eftir starfskröftum á ólík svið stofnunarinnar, s.s. eftirlits- og spásvið, Snjóflóðasetur og upplýsingatæknisvið. Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir m.a. störf við viðhald, umhirðu og stígagerð í þjóðgarðinum og við fræðslu- og markaðsmál. Hjá Umhverfisstofnun er t.a.m. hægt að sækja um ýmis störf er tengjast friðlýstum svæðum, mengunareftirliti, stjórn vatnamála og lagalegum úrlausnarefnum. Landgræðslan og Skógræktin auglýsa störf við skógrækt og landgræðslu um allt land, Náttúrufræðistofnun Íslands óskar eftir starfsfólki, m.a. á náttúrusöfn stofnunarinnar og til að vinna við rannsóknir og kortlagningu á náttúru landsins. Sömuleiðis auglýsa Íslenskar orkurannsóknir eftir starfsmönnum í jarðfræðikortlagningu og við náttúrufarsrannsóknir. Skipulagsstofnun auglýsir sumarstörf sem tengjast skipulagsgerð, gagnamálum og þróun upplýsingagáttar og Landmælingar Íslands auglýsir störf við skráningu örnefna og skjalavörslu. Þá auglýsir Stofnun Vilhjálms Stefánssonar fjölbreytt störf sem tengjast rannsóknum á norðurslóðamálum.
Ítarlegri upplýsingar um störfin er að finna á vef Vinnumálstofnunar.