Hoppa yfir valmynd
27. maí 2020

Fundur Velferðarvaktarinnar 27. maí 2020

40. fundur Velferðarvaktarinnar
Fjarfundur - með áherslu á Covid-19.

27. maí 2020 kl. 14-16.

Þátttakendur: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá W.O.M.E.N., Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásta Helgadóttir frá Umboðsmaður skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Ingvi Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Jón B. Birgisson frá Rauða krossinum á Íslandi, Jón Ingi Cæsarson frá BSRB, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sara Jasonardóttir frá umboðsmanni skuldara, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sólveig Anna Jónsdóttir frá ASÍ, Steinunn Bergmann frá BHM, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Stefán Vilbergsson og Þuríður H. Sigurðardóttir frá ÖBÍ og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

Gestir: Gissur Pétursson, Erna Kristín Blöndal, Tryggvi Haraldsson og Grétar Theódórsson frá félagsmálaráðuneytinu.

Heimsókn Velferðarvaktar á Suðurnes

Formaður upplýsti um fyrirhugaðan fund Velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum. Þar er nú mikið atvinnuleysi og hefur Velferðarvaktin áhuga að að heyra betur frá heimafólki um hvernig staðan á svæðinu blasir við þeim nú og hvers er að vænta í haust. Fundurinn verður haldinn 19. júní – nánari upplýsingar verða sendar síðar. 

Nýtt uppbyggingarteymi
Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, sagði frá nýju uppbyggingarteymi sem taka mun við hlutverki viðbragðsteymis sem sett var á laggirnar í upphafi Covid-19 faraldursins. Uppbyggingarteymið mun gegna sambærilegu hlutverki og viðbragðsteymið en málefnasviðin verða fleiri. Teymið mun safna og miðla upplýsingum um stöðu félags- og atvinnumála á landsvísu í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins og fylgja eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar er það varðar. Teymið mun kalla reglulega eftir upplýsingum um stöðu atvinnumála, sveitarfélaga, stofnana og annarra viðeigandi aðila og skila skýrslum þess efnis. Gert er ráð fyrir að Velferðarvaktin verði meðal ráðgefandi aðila. Tekið verður áfram við ábendingum á netfanginu [email protected].

Aðgerðapakkar stjórnvalda

Erna Kristín Blöndal, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, kynnti stöðuna á nokkrum verkefnum í aðgerðarpakka stjórnvalda. Nefndarálit með málinu má finna hér https://www.althingi.is/altext/150/s/1333.html (sjá kafla um félagslegar aðgerðir).

Meðal verkefna/aðgerða eru:

  1. Aðgerðir gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldis og ofbeldis gegn börnum.
  2. Tómstundir í sumar og vetur fyrir börn af efnalitlum heimilum (viðmið er kr. 740.000 á mánuði).
  3. Tryggja þjónustu til hópa í viðkvæmri stöðu. Styðja við félagsstarf aldraðra og fullorðins fatlaðs fólks. Ná til ungmenna í viðkvæmri stöðu. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti sótt um styrki til verkefna á þessu sviði.
  4. Aukin ráðgjöf og þjónusta til innflytjenda og flóttafólks. Útfærsla verkefnis ekki tilbúin.
  5. Fötluð börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra. Útfærsla verkefnis ekki tilbúin en gert er ráð fyrir að boðið verði annarsvegar upp á sumarbúðir og fjölskyldufrí hinsvegar. Einnig er unnið að sérverkefni á Suðurnesjum varðandi þjónustu við fötluð börn. Þá er unnið að verkefni sem lýtur að þjónustu við fötluð börn innflytjenda.
  6. Sárafátækt - stuðningur við hjálparsamtök. Kortlagning í haust.
  7. Félagsleg málefni fanga að lokinni afplánun – verkefni unnið í samstarfi við stýrihóp um félagsleg málefni fanga.

Í umræðum að lokinni kynningu vöktu fulltrúar vaktarinnar máls á eftirfarandi atriðum:

  • Huga þarf vel að eldri borgurum og félagslegri einangrun á þessum tímum.
  • Ánægja með að verið sé að tryggja sumardvalir fyrir fötluð börn en markmið stjórnvalda ætti að vera að draga úr aðgreiningu með tilliti til heimsmarkmiða og Barnasáttmálans.
  • Fyrirkomulag greiðslu vegna tómstundastyrkja.
  • Mikilvægt að tryggja upplýsingagjöf til erlendra ríkisborgara, einkunn þegar kemur að réttindum varðandi atvinnumál o.þ.h.
  • Mögulegur stuðningur til sveitarfélaga svo þau hafi bolmagn til að fjölga fagfólki s.s. félagsráðgjöfum til að gera þeim kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu án þess að ganga á heilsu starfsfólks, sem er undir miklu álagi í sínu starfi.
  • Jákvætt að fyrirhugað sé að greina hópinn sem býr við sárafátækt en mikilvægt að aðgerðin miði að því að fólk eigi ekki að þurfa að vera upp á hjálparsamtök komið. Fram kom að það skipti máli með hvaða aðferð aðstoðin er veitt og í því samhengi var vísað var til málþings sem haldið var á vegum Pepp, samtaka fólks sem býr við fátækt, þar sem kom skýrt fram að það að bíða í biðröð eftir matvörum í poka væri ekki mannsæmandi og að tala um matarsóun sem rök sé ekki rétt nálgun á stöðuna. Mögulega verður sambærilegt málþing endurtekið með haustinu en forysta hjálparsamtaka lýsti á málþinginu að það hefði áhuga á að koma oftar saman. Hér þarf einnig að líta til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, sem er mismunandi á milli sveitarfélaga. Kalla mætti eftir umræðu meðal þeirra um meiri samræmingu, en vaktin hefur vakið athygli á stöðunni með tillögugerð o.fl.
  • Minnt var á þjónustu Mannréttindaskrifstofu Íslands varðandi lögfræðiráðgjöf fyrir innflytjendur og Kvennaráðgjöfina.
  • Hugmynd um greiðslustofu var sett fram, þar sem hægt væri að sækja um allar bætur/aðstoð á einum stað.

Önnur mál

  • Gert er ráð fyrir kynningu á stöðuskýrslu 2 frá uppbyggingarteyminu á næsta fundi.
  • Minnt á næsta fund 19. júní á Suðurnesjum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta