Árni Helgason formaður nefndar um málefni útlendinga
Árni Helgason, lögmaður tekur við formennsku í þingmannanefnd um málefni útlendinga og innflytjenda. Hann tekur við formennskunni af Hildi Sverrisdóttur, aðstoðarmanni Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Árni Helgason er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og rekur lögmannsstofuna JÁS lögmenn. Hann starfaði einnig í kærunefnd útlendingamála frá 2016-2020.
Nefndinni var komið á fót í haust og mun hún vera sameiginlegur vettvangur þingmanna og fulltrúa ráðherra og ráðuneyta fyrir upplýsingaöflun og upplýsingaskipti um málaflokkinn og til að vera til samráðs um framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoðun laga og reglugerða á málefnasviðinu með mannúðarsjónarmið og skilvirka þjónustu til grundvallar.
Þá verða einnig þær breytingar á nefndinni að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, tekur sæti í nefndinni og tekur við af Stefaníu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra þingflokks Viðreisnar. Lára Björg Björnsdóttir, ráðgjafi ríkisstjórnar í jafnréttismálum einnig, tilnefnd af forsætisráðuneytinu. Tekur hún við af Höllu Gunnarsdóttur sem látið hefur af störfum í forsætisráðuneytinu.