Greiningu á tækifærum í Uppbyggingarsjóði EES ýtt úr vör
Í dag var vinnu við greiningu á tækifærum í Uppbyggingarsjóði EES fyrir íslenska aðila á sviði nýsköpunar, samkeppnishæfni, rannsókna, menntunar og menningar ýtt úr vör.
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna greininguna og fékk meistaranemana Hjördísi Láru Hlíðberg og Matthías Aron Ólafsson til að vinna verkið, en það er unnið í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Rannís. Jón Gunnar Ólafsson, starfandi forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, er umsjónarmaður verkefnisins ásamt Tómasi Joensen, verkefnisstjóra hjá stofnunni. Þau Hjördís, Matthías, Jón Gunnar og Tómas funduðu í dag með fulltrúum utanríkisráðuneytisins, Rannís, Orkustofnun, Mannréttindaskrifstofu Íslands og starfsmönnum sjóðsins í Brussel.
Greiningunni er ætlað að varpa ljósi á reynslu íslenskra aðila af sjóðnum og hvaða ónýttu tækifæri gætu verið til staðar fyrir íslenska aðila með frekari þátttöku í verkefnum sjóðsins.
Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi með því markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Heildarframlag EFTA ríkjanna innan EES fyrir núverandi tímabil sjóðsins (2014-2021) nemur um 1.500 milljónum evra. Ísland stendur að jafnaði straum af um 3-4% af heildarframlagi ríkjanna. Hægt er að fræðast nánar um sjóðinn á www.ees.is.