Hoppa yfir valmynd
5. júní 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sjálfbær byggingariðnaður, íslensk framleiðsla, handspritt úr matarafgöngum og lífræn verðlaun í íþróttum meðal verkefna sem hljóta styrki í aukaúthlutun Hönnunarsjóðs

Hönnunarsjóður hefur úthlutað um 50 milljónum kr. í aukaúthlutun sjóðsins til átaksverkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs. 49 verkefni hlutu styrk að þessi sinni en alls bárust 276 umsóknir um styrki þar sem sótt var um 520 milljónir. Árangurshlutfall umsækjenda er 18% en sjóðnum hefur ekki borist slíkur fjöldi umsókna frá stofnun hans 2013.

Hönnunarsjóði var falin úthlutunin samkvæmt þingsályktun um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs vegna Covid-19.

„Ég fagna þeirri áherslu á nýsköpun og skapandi lausnir sem er einkennismerki þessarar úthlutunar úr Hönnunarsjóði. Nú gildir að leita nýrra lausna við þeim áskorunum sem blasa við,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

100 hönnuðir og arkitektar standa á bak við þessi 49 fjölbreyttu verkefni sem hljóta styrk að þessu sinni og fjármagnið snertir með beinum eða óbeinum hætti um 300 manns. Verkefnin endurspegla grósku ólíkra greina og fjármagnið dreifðist á marga staði. Verkefni styrkþega fjalla meðal annars um grænar áherslur og sjálfbærni, samfélagsleg verkefni sem lúta að auknu samstarfi og nýjum áherslum, rannsóknir og verkefni sem snúast um aukna framleiðslu á Íslandi, nýtingu auðlinda og viðskiptalegar áherslur.

Hönnuðir og arkitektar brugðust fljótt og vel við snörpu umsóknarferli fyrir aukaúthlutunina, sem staðfestir hve þörfin fyrir öflugan Hönnunarsjóð er mikil.

„Það vakti mikla ánægju stjórnar sjóðsins, hversu margar umsóknir bárust og af hve miklum gæðum þær voru, þrátt fyrir að umsækjendur hefðu einungis haft skamman frest til að leggja þær fram vegna þessarar aukaúthlutunar. Verkefnin sem hljóta styrki snerta mjög breitt svið og við erum sannfærð um að á næstu mánuðum munum við sjá mörg áhugaverð verkefni taka á sig mynd. Sjóðstjórn fagnar því að ákveðið hafi verið að auka framlag til Hönnunarsjóðs um 50 milljónir, en með því eru veittar samtals 100 milljónir króna til styrktar verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs þetta árið. Bindur stjórnin vonir við að fjármagnið hafi jákvæð áhrif á þá erfiðu stöðu sem við erum öll að upplifa,“ segir Birna Bragadóttir formaður stjórnar Hönnunarsjóðs.

Aukaúthlutun í Hönnunarsjóð 2020 from Iceland Design Centre on Vimeo.

Hæsta einstaka styrkinn, 2.500.000 kr., hlaut að þessu sinni verkefnið Grænspor í átt að sjálfbærari byggingariðnaði en markmið verkefnisins er að hanna og þróa gagnagrunn, hugbúnaðarlausn og þjónustugrunn fyrir grænni byggingariðnað.

Í þessu myndbandi má sjá ræðu ráðherra í tilefni af úthlutun og styrkþega veita styrknum viðtöku. Leikstjórn Einar Egils og kvikmyndataka Anton Smári.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta