Ráðherra úthlutar styrkjum úr þróunarsjóði innflytjendamála
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur úthlutað styrkjum til 20 verkefna úr þróunarsjóði innflytjendamála. Þróunarsjóðurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2007 og hefur árleg fjárveiting alla jafna verið 10 m.kr. Í ár voru framlög til sjóðsins aukin öðru sinni úr 10 í 25 milljónir króna samkvæmt ákvörðun ráðherra. Sérstök áhersla var jafnframt lögð á að styrkir yrðu veittir til verkefna í þágu barna og ungmenna.
Alls bárust 72 umsóknir í ár fyrir samtals um 169 m.kr. Af þeim 20 styrkjum sem veittir voru í ár laut rúmlega helmingur að málefnum barna og fjölskyldna þeirra. Enn fremur fengu umsóknir sem lutu að vinnumarkaðsmálum, virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og grasrótarstarfi styrki.
Háskólasetur Vestfjarða annast umsýslu sjóðsins samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið. Upplýsingar um úthlutun verkefna sem hlutu styrk í ár má finna á vef Háskólaseturs Vestfjarða. Þar er einnig að finna samantekt á styrkveitingum fyrri ára og kynningum á verkefnum sem lokið er.
Vegna samkomutakmarkana sem í gildi voru vegna kórónuveirufaraldursins voru styrkir ekki afhentir við formlega athöfn eins gert hefur verið undanfarin ár heldur var tilkynnt um þá með bréfi.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ég hef lagt mikla áherslu á málefni barna og ungmenna í minni ráðherratíð og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margar öflugar umsóknir bárust þar sem börn og ungmenni eru í forgrunni. Við sáum þarna fjölda metnaðarfullra verkefna sem öll miða að því með einum eða öðrum hætti að stuðla hér að samfélagi þar sem allir njóta jafnra tækifæra óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum.“