Hoppa yfir valmynd
9. júní 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Þingsályktunartillaga um siðferðileg gildi og forgangsröðun samþykkt á Alþingi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Alþingi samþykkti síðdegis í dag þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Ályktunin var samþykkt einróma og mótatkvæðalaust. „Þetta er gleðidagur og enn einn mikilvægur áfangi sem tengist heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem einnig var samþykkt einróma á Alþingi fyrir 3. júní í fyrra“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

„Nauðsynlegt er að stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið hvíli á traustum siðferðilegum grunni og ríkja þarf sátt um þau gildi sem eiga að veita leiðsögn til að ná settum markmiðum þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni“ sagði ráðherra þegar hún mælti fyrir tillögunni á Alþingi í mars síðastliðnum. „Til þess að ná meginmarkmiðum stefnunnar, sem er að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt, er einsýnt að forgangsraða þarf fjármunum til heilbrigðisþjónustunnar.“

Þingsályktunin fjallar um hvernig best megi nálgast það viðfangsefni að forgangsraða fjármunum í heilbrigðisþjónustunni og hvaða gildi eigi að liggja þar til grundvallar. Þetta var meginumfjöllunarefnið á heilbrigðisþinginu sem heilbrigðisráðherra efndi til síðastliðið haust. Fjöldi fólks tók þátt í þinginu og lagði sitt af mörkum við að móta þá sýn sem birtist í ályktun Alþingis sem samþykkt var í dag.

Þau siðferðilegu gildi sem höfð skulu að leiðarljósi eru í fyrsta lagi mannhelgi, í öðru lagi þörf og samstaða og í þriðja lagi hagkvæmni og skilvirkni, líkt og nánar er fjallað um og gerð grein fyrir í ályktun Alþingis.

Í samræmi við ályktunina skal heilbrigðisráðherra skipa starfshóp til að undirbúa stofnun þverfaglegrar og ráðgefandi siðanefndar um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Nefndin skal vera ráðgefandi og gæti til að mynda gefið út leiðbeinandi álit um forgangsröðun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta