Ísland í kjarnahóp um mannréttindi í Íran
Á fundi ungliðahreyfingar Amnesty International í dag með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis-og þróunarsamvinnuráðherra, var honum afhentur undirskriftarlisti þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að vekja athygli á stöðu mannréttinda í Íran.
Áskorunin kveður meðal annars á um að íslensk stjórnvöld krefjist þess á alþjóðavettvangi að þeir sem handteknir voru í aðgerðum íranskra yfirvalda gegn friðsamlegum mótmælum þar í landi í nóvember síðastliðnum, verði leystir úr haldi og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna fái óheftan aðgang til að rannsaka málsatvik. Fyrir nokkru stóð ungliðahreyfingin fyrir táknrænni aðgerð á Lækjartorgi þar sem teiknaðar voru útlínur þeirra sem létu lífið í mótmælunum í Íran dagana 15.-18. nóvember 2019. Samkvæmt Amnesty International létust yfir þrjú hundruð manns og þúsundir særðust.
Ráðherra tók við áskoruninni og fagnaði frumkvæði ungliðahreyfingarinnar. Hann tjáði þeim jafnframt að Ísland væri nú þegar búið að stíga skref í þá átt sem kallað væri eftir með því að gerast aðili að svokölluðum „kjarnahópi“ ríkja á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um ályktun sem reglulega er borin fram um stöðu mannréttindamála í Íran. Áður hafi Ísland haft þá stefnu að taka virkan þátt í umræðum um þau mál, m.a. í fundarlotu ráðsins í mars, þar sem fordæmd var framganga stjórnvalda gagnvart mótmælendum í nóvember og það mannfall sem þá varð og ofbeldi sem beitt var.
„Þetta er til marks um áherslur okkar. Málfrelsi og rétturinn til friðsamlegra mótmæla skipta okkur afar miklu máli og öllum ríkjum ber að virða þessi réttindi,“ segir Guðlaugur Þór. „Eftir að setu Íslands í mannréttindaráðinu lauk höfum við verið að skerpa áherslur okkar á þeim vettvangi og m.a. felur það í sér að við höfum tekið sæti í kjarnahópi ríkja, sem Svíar hafa verið í forystu fyrir, sem ber upp með reglubundnum hætti ályktun um mannréttindaástand í Íran."
Á fundi ráðherrans og fulltrúa Íslandsdeildar Amnesty var um það rætt, að þótt Ísland væri lítið land geti Íslendingar látið mikið að sér kveða á sviði mannréttinda eins og berlega kom í ljós með setu okkar í mannréttindaráðinu. Mikla athygli vakti þegar Ísland hafði frumkvæði að því að flutt var sameiginlegt ávarp, af hálfu 36 ríkja, um bágt ástand mannréttinda í Sádi-Arabíu og einnig þegar Ísland hafði frumkvæði að samþykkt ályktunar mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda á Filippseyjum.
„Í báðum málum nutum við góðs liðsinnis Amnesty International og þökkum þeim kærlega fyrir stuðninginn,“ segir Guðlaugur Þór.