Tímamót í framkvæmdum við nýjan Landspítala
Sprengivinnu vegna framkvæmda við grunn nýs Landspítala er að ljúka og er stefnt að því að hefja uppsteypu meðferðarkjarnans von bráðar. Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin og þungamiðjan í starfsemi nýs Landspítala. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heimsótti framkvæmdasvæðið í gær og hleypti af einni sprengingu, sem er þar með ein af þeim síðustu í þessari risavöxnu framkvæmd.
„Þetta eru stór tímamót og mikill áfangi að sjá draum okkar landsmanna um uppbyggingu Landspítala rætast. Framkvæmdir hér á svæðinu hafa gengið vel og færa okkur nær þvi markmiði að hér verði tekið í notkun nýtt þjóðarsjúkrahús árið 2026. Nýtt sjúkrahús mun breyta miklu til framtíðar allri heilbrigðisþjónustu, auka þjónustu við sjúklinga og stórbæta aðstöðu heilbrigðisstarfsfólks“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH ohf. segir jarðvegsframkvæmdir við grunn hússins hafa gengið samkvæmt áætlun, en Íslenskir aðalverktakar hafa annast framkvæmdirnar. „Verkefnið hefur ekki haft neina samgönguröskun í för með sér á svæðinu og um leið endurspeglar landfyllingarverkefnið gildi umhverfisþátta og þess metnaðar sem lagt er upp með. Þessi táknræna lokasprenging í grunninum segir okkur að nú sé næsta stóra verkefnið að steypa upp húsið og áætlanir NLSH eru að uppsteypan geti hafist von bráðar í samræmi við heimildir. Fimm verktakar munu fljótlega skila inn tilboðum í lokuðu útboði.“
Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin á skipulagsreit Hringbrautarverkefnisins og í henni verður þungamiðjan í starfsemi Landspítalans. Gerðar hafa verið sambærilegar kröfur um aðbúnað í meðferðarkjarna og í nýjum háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar. Hönnun kjarnans er hugsuð út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss, með áherslu á einfalt og skýrt fyrirkomulag ásamt greiðum leiðum milli starfseininga.