Hoppa yfir valmynd
17. júní 2020 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli 17.júní 2020

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti ávarp á Austurvelli.  - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi hvernig veganesti Jóns Sigurðssonar hefði dugað þjóðinni í baráttunni gegn farsóttinni  í ávarpi sínu á Austurvelli á 17.júní og minnti jafnframt á að mótmæli hans hefðu verið mótmæli gegn kúgun rétt eins og mótmælaaldan gegn kynþáttamisrétti sem gengið hefur yfir heimsbyggðina að undanförnu.

Hún sagði að ef til vill væri þetta mikilvægasti þjóðhátíðardagurinn sem margir Íslendingar hefðu lifað. „Á þessum degi hugsum við og tölum um hvað það þýðir að vera Íslendingur. Í dag er sú tilfinning dýpri og sterkari að örlög okkar sem búum hér saman á þessari eyju séu samofin. Einnig að örlög og saga séu ekki aðeins það sem hendir heldur einnig orð okkar og athafnir sem móta sögu og örlög þjóðarinnar.“ 

Forsætisráðherra sagði Jón Sigurðsson hafa nefnt þrennt til að Íslendingar gætu orðið fullvalda og sjálfstæð þjóð: sjálfstætt löggjafarvald og stjórnsýsla á Íslandi, verslunarfrelsi og skólastarf. Jón hafi rökstutt það síðastnefnda með því að skólunum væri ætlað, hverjum á sínu sviði, að stuðla að framförum samfélagsins og mæta þörfum á hverri tíð og að hann hafi talið að engum fjármunum væri varið heppilegar en þeim sem keypt væri fyrir andleg og líkamleg framför sem mest mætti verða.

„Við sem í dag minnumst Jóns og fögnum lýðveldinu getum þakkað fyrir þessa hugsjón. Sú harða barátta sem við höfum þurft að heyja undanfarna mánuði við skæða farsótt hefur einmitt heppnast vel vegna þeirra andlegu og líkamlegu framfara sem orðið hafa í íslensku samfélagi.“

Forsætisráðherra ræddi einnig réttindabaráttu svartra og þá mótmælaöldu sem farið hefur um heiminn undanfarið: „Við styttu Jóns Sigurðssonar er líka gott til þess að hugsa að hann var maður sem barðist gegn kúgun í stað þess að vera fulltrúi kúgunarkerfis. Fáir mótmælendur hafa haft ríkari áhrif á sögu íslensks samfélags – þegar hann stóð upp og mótmælti dönsku yfirvaldi á Íslandi. Rétturinn til að mótmæla – rétturinn til að rísa upp gegn kerfisbundnu misrétti og ofbeldi - er mikilvægur. Mótmæli almennings erlendis gegn gömlum og nýjum kúgunarkerfum ættu að vera okkur innblástur til að skoða okkur sjálf og eigin hug. Ég tek undir með þeim sem mótmæla misrétti og kúgun um heim allan, nú á undanförnum vikum rótgrónu kynþáttamisrétti.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta