Hoppa yfir valmynd
19. júní 2020

Fundur Velferðarvaktarinnar 19. júní 2020

41. fundur Velferðarvaktarinnar

Fundur á Suðurnesjum

19. júní 2020 kl. 9.00-14.00.

Fulltrúar Velferðarvaktar: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásgerður Jóna Flosadóttir frá Fjölskylduhjálp Íslands, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Ingvi Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Helen Símonardóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Patience A. Karlsson frá W.O.M.E.N, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sólveig Anna Jónsdóttir frá ASÍ, Steinunn Bergmann frá BHM, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Þórdís Viborg frá ÖBÍ og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

Þann 19. júní heimsótti Velferðarvaktin Suðurnesin heim og fundaði með heimamönnum í Hljómahöllinni. Tilgangur fundarins var að fá yfirlit yfir helstu áskoranir á svæðinu í kjölfar Covid-19 og heyra hvernig heimamenn telja að staðan verði í haust og vetur. Um 50 manns sóttu fundinn. Fundarstjóri var Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ.

Dagskrá var eftirfarandi:

  • Almenn opnun á fundinum, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.
  • Samfélagið á Suðurnesjum, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs.
  • Vinnumálastofnun Suðurnesja, Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður.
  • Sveitarfélögin:

Félagsþjónusta, María Rós Skúladóttir, deildarstjóri félagsþjónustu Suðurnesjabæjar.

Barnavernd, María Gunnarsdóttir, forstöðumaður Barnaverndar Reykjanesbæjar.

Skólarnir og skólaþjónusta, Sigrún Pétursdóttir, ráðgjafi hjá félagsþjónustu- og fræðslusviði Grindavíkur.

  • VIRK starfsendurhæfingarsjóður á Suðurnesjum, Eysteinn Eyjólfsson, verkefnastjóri almannatengsla og útgáfu.
  • Velferðarsjóður Suðurnesja/kirkjurnar á Suðurnesjum, Vilborg Oddsdóttir, Hjálparstarf kirkjunnar.
  • Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum, Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður FÍ.
  • Rauði krossinn. Fanney Grétarsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins á Suðurnesjum.
  • Lögreglan, Bjarney Sólveig Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og Alda Hrönn Jóhannesdóttir, yfirlögfræðingur embættisins.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Þórunn Finnsdóttir, yfirsálfræðingur hjá HSS og Andrea Hauksdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslunnar.
  • Samantekt, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ.
  • Umræður.

Á fundinum komu fram áhugaverðar upplýsingar um stöðuna. Heimamenn drógu m.a. fram að nú væri samfélagið á vissan hátt betur undirbúið til að takast á við áföll heldur en í kjölfar efnahagshrunsins sem átti sér stað árið 2008. Helsti munurinn er sá að nú er hægt að grípa hratt til þeirrar dýrmætu reynslu sem varð til í kringum efnahagshrunið um hvað virki og hvað ekki. Þá er til mun betri tölfræði um stöðuna á svæði nú en þá. Áskoranir eru fjölmargar vegna afleiðinga Covid-19. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 19,6% í maí m.a. vegna þess hve svæðið er háð flugrekstri og ferðaþjónustu. Búast má við að atvinnuleysi aukist í september ef ekki verður viðsnúningur í flugrekstri. Þá má búast við að fleiri fái fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélaganna með haustinu. Einnig eru áhyggjur af því að tekjutap foreldra geti valdið því að þeir kaupi minni þjónustu fyrir börnin s.s. skólamáltíðir, leikskólavistun og íþrótta- og tómstundastarf. Tilkynningar vegna barnaverndarmála hafa aukist sem og biðlistar vegna ýmiskonar þjónustu s.s. sálfræðiþjónustu og úrlausn mála hjá Vinnumálastofnun.

Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða og samstarfsverkefna meðal lykilaðila á svæðinu til að takast á við stöðuna í kjölfar Covid-19. Meðal þeirra eru:

  • Suðurnesjahópur, samráðshópur forvarnaaðgerða í kjölfar Covid-19 (lögreglan, Reykjanesbær, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum).
  • Ævintýrasmiðjurnar fyrir fötluð börn og ungmenni.
  • Skapandi sumarnámskeið fyrir börn á Ásbrú.
  • Dregið úr sumarlokunum, s.s. í athvarfi og iðju í Björginni og Hæfingarstöðinni og félagsstarfi aldraðra.
  • Hópur um atvinnumál fólks af erlendum uppruna.
  • Hópur um nýsköpun.
  • Ýmis verkefni á vegum Vinnumálastofnunar s.s. starfstengd námskeið/fræðsla/nám, starfsþjálfunarsamningar, mentor verkefni, markþjálfun og Nám er vinnandi vegur 2.
  • Sumarátakið Vinnum saman, sem er samstarf vinnuskóla Reykjanesbæjar, fræðslusviðs og Lögreglustjórans á Suðurnesjum.
  • Eftirfylgni á vegum skólanna þar sem m.a. námsráðgjafar hafa haldið sérstaklega utanum nemendur í brotthvarfshættu til að halda sem flestum í virkni.
  • Þá hafa ýmis verkefni, sem fóru af stað fyrir Covid-19, reynst vel s.s. verkefni á sviði barnaverndar eins og Ábyrg saman í Reykjanesbæ, í samstarfi við Lögreglustjórann á Suðurnesjum og tilraunaverkefnið Fjölskylduheimili í Reykjanesbæ.

Hugur var í heimamönnum sem sinna velferðarþjónustu á Suðurnesjum og fluttu erindi á fundinum. Sá hugur kom m.a. fram í lokaorðum eins fyrirlesarans: áskoranir eru tækifæri, brúum bilið, byggjum brýr, skiljum engan eftir.

Áður en fundi var slitið þakkaði formaður Velferðarvaktarinnar heimamönnum fyrir vandaðan undirbúning fundarins og góðar móttökur Suðurnesjamanna.

Að fundi loknum var farið í heimsókn í frumkvöðlafyrirtækið Aðaltorg  sem m.a. hefur byggt Marriot hótel með nýrri byggingartækni og bíður með fullmótað atvinnutækifæri í því húsnæði. Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, kynnti starfsemina.

Næsti fundur verður haldinn í byrjun september/LL.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta