Hoppa yfir valmynd
26. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

75 ára afmæli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York - mynd

Í dag eru 75 ár liðin frá því að stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður í San Francisco. Af því tilefni fór fram hátíðarfundur í höfuðstöðvum SÞ í New York, sem haldinn var á netinu í ljósi COVID-19 heimsfaraldursins. Fundinn ávörpuðu framkvæmdastjóri SÞ og forseti allsherjarþingsins, ásamt fulltrúum öryggisráðsins, efnahags- og félagsmálaráðsins, Alþjóðadómstólsins í Haag og svæðahópa aðildarríkja, sem eru fimm talsins, auk Bandaríkjanna.

Fastafulltrúi Íslands, Jörundur Valtýsson, ávarpaði fundinn fyrir hönd Vesturlandahópsins, en Ísland gegnir formennsku í hópnum í júní. Í ávarpinu kom fastafulltrúi inn á mikilvægi stofnsáttmálans fyrir starfsemi Sameinuðu þjóðanna sem settar voru á laggirnar í kjölfar síðari heimstyrjaldarinnar. Stofnunin sinni mikilvægu hlutverki í að stuðla að friði, virðingu fyrir mannréttindum og jafnrétti og sjálfbærri þróun. Margt hefði áunnist en ennþá væri mikið verk fyrir höndum við að útrýma fátækt og stuðla að auknu réttlæti, koma á friði, stemma stigu við vanda flóttafólks og berjast gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Heimsfaraldurinn hefði aukinheldur í för með sér áskoranir sem ættu sér enga hliðstæðu og mikilvægt verði að framfylgja heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun sem leiðarljós í uppbyggingu. Afmæli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna væri jafnframt tækifæri til að ná til ólíkra þjóðfélagshópa og stuðla að samtali um gildi alþjóðasamvinnu og Sameinuðu þjóðanna „svo saman getum við mótað þá framtíð sem við viljum og þær Sameinuðu þjóðir sem við þurfum.“
 
Stofnsáttmálinn ítrekar mikilvægi þess að koma í veg fyrir styrjaldir framtíðarinnar, en í upphafi hans segir "Vér, hinar sameinuðu þjóðir, [erum] staðráðnar í að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið."

Utanríkisráðherra sendi í dag afmæliskveðju í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá undirritun stofnsáttmálans:

 

Ávarp fastafulltrúa Íslands á hátíðarfundi Sameinuðu þjóðanna í dag:

Nánar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta