Efling fjölþjóðakerfisins
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi bandalags ríkja til eflingar fjölþjóðakerfisins, þegar þess var meðal annars minnst að 75 ár eru liðin frá undirritun stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, 26. júní 1945. Bandalaginu var ýtt úr vör á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2019 að frumkvæði utanríkisráðherra Frakklands og Þýskalands.
Á fundinum ræddu utanríkisráðherrar fleiri en 50 ríkja, auk framkvæmdastjóra Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar og forseta samtakanna Blaðamenn án landamæra, leiðir til að efla fjölþjóðlega heilbrigðiskerfið og aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu í tengslum við heimsfaraldur kórónaveiru.
Í ávarpi sínu áréttaði Guðlaugur Þór að COVID-19 herjaði á gjörvalla heimsbyggðina og það gæti ekki verið einkamál einstakra ríkja að bregðast við afleiðingum vírussins eða ráða niðurlögum hans. „Allt frá því að bera kennsl á vírusinn og hefta útbreiðslu hans, til þróunar og dreifingar bóluefnis gegn honum verður að gerast á grundvelli samvinnu ríkja“, sagði hann í ávarpinu. Hann vísaði til mikilvægis Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar við að vinna bug á vírusnum en minnti jafnframt á að enginn væri yfir uppbyggilega gagnrýni hafinn. Því yrði gagnlegt að fá boðaða heildarúttekt á viðbrögðum stofnunarinnar við COVID-19.