Gjald vegna skimunar á landamærum verður lægra en áformað var
Gert er ráð fyrir því að áfram verði haldið að skima fyrir COVID-19 á landamærum á næstu vikum en þörfin fyrir það verður endurmetin reglulega.
Frekari upplýsingar um gjaldtöku vegna skimunar á landamærum
- Hámark er sett á kostnað þeirra sem þurfa að fara oft í sýnatöku á landamærum. Þurfi sami einstaklingur að fara í sýnatöku oftar en tvisvar sinnum á 30 daga tímabili getur hann sótt um endurgreiðslu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir fjárhæð sem hann greiðir umfram 22.000 kr.
- Fólk sem ekki er í áætlunarferð og kemur til landsins utan þess tíma sólarhringsins sem sýnataka fer fram (t.d. komur fólks með einkaflugi) getur óskað eftir útkalli. Þeim sem sinna sýnatöku í útkalli er heimilt að taka 30.000 kr. útkallsgjald sem deilist á milli þeirra sem fara í sýnatöku og kemur til viðbótar fyrrnefndu gjaldi sem einstaklingar greiða samkvæmt reglugerð.
- Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa ekki að fara í sýnatöku, líkt og áður hefur komið fram.
Greiðslufyrirkomulag
- Þeir sem kjósa að greiða skimunargjaldið fyrir komuna til landsins (lægra gjald) geta gert það á Netinu í gegnum greiðslumiðlunarsíðu. Greiðslan þarf að eiga sér stað að minnsta kosti degi fyrir komu. Lægra gjald vegna fyrirframgreiðslu helgast af hagræði og tímasparnaði sem ávinnst með því móti.
- Þeir sem greiða á landamærum (hærra gjald) geta greitt með greiðslukorti en einnig er miðað við að hægt verði að taka við reiðufé í nokkrum gjaldmiðlum og greiðir fólk þá tiltekna fasta fjárhæð sem er óháð gengi.
Góð reynsla af skimunarverkefninu
Margir aðilar koma að verkefninu um skimun á landamærum. Verkefnið er afar viðamikið og án nokkurra fordæma og hefur því krafist mikillar og góðrar samvinnu allra sem að því koma. Reynslan hingað til hefur verið góð og hafa engir þeir örðugleikar komið upp sem ekki hefur tekist að leysa.
Í kostnaðaráætlun sem verkefnisstjórn um skimanir á landamærum lagði fram 23. maí sl., þ.e. áður en verkefnið hófst var miðað við fyrirliggjandi greiningargetu veirufræðideildar Landspítala sem var um 500 sýni á sólarhring. Með þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar í verkefninu hefur verið unnt að greina allt að 2.000 sýni á sólarhring. Aukinn fjöldi sýna með þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar hefur leitt til aukinnar kostnaðarhagkvæmni og eftir því sem verkefninu hefur undið fram hefur tekist að straumlínulaga aðferðir við framkvæmdina og auka skilvirkni.